Íslenski boltinn

Ferli Gunnars hugsanlega lokið því ekki mátti færa leikinn: „Þessu hefur margoft verið neitað“

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Þór Gunnarsson mun ekki leika meiri fótbolta á þessu ári. Hann verður 35 ára á árinu og ferlinum gæti verið lokið.
Gunnar Þór Gunnarsson mun ekki leika meiri fótbolta á þessu ári. Hann verður 35 ára á árinu og ferlinum gæti verið lokið. VÍSIR/BÁRA

KR-ingar og Vængir Júpiters vildu spila bikarleik sinn á Meistaravöllum í gær en var það óheimilt samkvæmt reglugerð KSÍ. Því spiluðu þau inni í Egilshöll, á gervigrasvelli sem þykir slæmur, og það gæti hafa orðið til þess að ferli leikmanns KR sé lokið.

Gunnar Þór Gunnarsson, miðvörður KR, sleit krossband í hné þegar önnur löpp hans festist í vellinum og ferli hans gæti verið lokið. Í vetur sleit annar KR-ingur, Emil Ásmundsson, krossband í hné á sama velli.

Vængir Júpiters, sem leika í 3. deild, spila reyndar vanalega heimaleiki sína á gervigrasvellinum fyrir utan Egilshöllina. Úr því að sjálfir Íslandsmeistararnir voru að koma í heimsókn, og því von á fleiri áhorfendum en vanalega, var ákveðið að hafa leikinn inni í Egilshöllinni. Leikurinn hefði líklega verið færður á Extravöllinn í Dalhúsum, heimavöll Fjölnis, ef ekki færi þar fram bikarleikur Fjölnis og Selfoss í kvöld.

Fái ekki heimaleik í krafti aðstöðumunar

Í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót segir um bikarkeppnina: „Draga skal um hvaða lið mætast og skal það lið sem dregið er á undan leika á heimavelli[…]“ Þessi regla kom í veg fyrir að hægt væri að færa leikinn í Vesturbæinn, eins og bæði lið vildu.

„Eðli bikarkeppninnar er þannig að það lið sem dregið er á undan skal leika á heimavelli. Svo er bara eitt undanþáguákvæði, sem er sökum fjarlægðar og á augljóslega ekki við í þessu tilviki,“ segir Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ. Í því undanþáguákvæði segir að leikur geti í ákveðnum tilvikum farið fram á „hlutlausum velli“ berist ósk um það frá báðum aðilum, en ljóst er að heimavöllur KR er ekki hlutlaus völlur.

„KR hringdi bara en það kom aldrei formleg ósk frá félögunum um þetta. En þetta er bara ekki heimilt samkvæmt reglugerð og þessu hefur margoft verið neitað. Til dæmis er það þannig í forkeppninni að þau lið sem eiga ekki heimavöll geta ekki fært sig á heimavöll andstæðingsins. Þau verða að finna annan völl til að leika á. Það hefur verið talað um að menn geti ekki í krafti aðstöðumunar fengið til sín heimaleiki. Drátturinn á að ráða því,“ segir Birkir.

KR vann leikinn 8-1 og komst þar með áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×