Erlent

Gaf í skyn róttækar aðgerðir gegn hryðjuverkum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Forsætisráðherra Bretlands ávarpaði þjóðina í skugga hryðjuverkaárásar.
Forsætisráðherra Bretlands ávarpaði þjóðina í skugga hryðjuverkaárásar. Vísir/Getty

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, gaf í skyn í gær að grípa þyrfti til róttækra aðgerða gegn hryðjuverkum í landinu í kjölfar árásar í borginni Reading í Bretlandi á laugardagskvöld.

Karlmaður á þrítugsaldri, að nafni Khairi Saadallah, náði að stinga þrjá til bana og særa aðra þrjá til viðbótar þrátt fyrir að vera undir sérstöku eftirliti bresku leyniþjónustunnar fyrir minniháttar brot.

Í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar sagði Johnson að ríkisstjórnin væri reiðubúin að draga lærdóm af árásinni þegar lögregluyfirvöld hefðu lokið rannsókn sinni.

Johnson sagði að það væri sárgrætilegt og skelfilegt að í Bretlandi hefði fólk látist með þessum hætti. Ef rannsókn lögreglu leiðir í ljós að lagalegra úrbóta væri þörf í málum sem þessum myndi ríkisstjórnin ekki hika við að grípa til aðgerða.

„Við erum núna með manneskju í haldi. Það er nú í verkahring lögreglunnar að komast til botns í málinu og finna út hvað gerðist nákvæmlega. Það er því erfitt að fjalla um málið í smáatriðum,“ sagði forsætisráðherrann og bætti við.

„Ef við þurfum að gera einhverjar lagalegar breytingar til að koma í veg fyrir að svona nokkuð geti gerst aftur þá munum við ekki hika við að grípa til slíkra aðgerða – líkt og við höfum áður gert.“

Forsætisráðherrann talaði undir rós í ávarpinu því ekki liggur fyrir hvað hann meinti með lagalegum úrbótum gegn hryðjuverkum en innanríkisráðherrann hefur talað fyrir því að herða þyrfti útlendingalögin til að auðvelda ríkinu að vísa fólki, sem hefur verið dæmt fyrir brot sem tengjast hryðjuverkum, úr landi.


Tengdar fréttir

Á­rásar­maðurinn nafn­greindur

Karlmaðurinn sem var handtekinn eftir hnífstunguárásina í Forbury Gardens og er grunaður um að hafa banað þremur heitir Khairi Saadallah.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×