Íslenski boltinn

Ragnar eftir kinnbeinsbrotið: Af hverju er ekki refsað eins fyrir brot í lofti?

Sindri Sverrisson skrifar
Ragnar Bragi Sveinsson á heimavelli sínum í Árbænum í dag.
Ragnar Bragi Sveinsson á heimavelli sínum í Árbænum í dag. mynd/stöð 2

„Djöfull var þetta vont. Þegar ég fór að þreifa á andlitinu á mér og fann að það var einhver hola þarna inn, þá hugsaði ég með mér að þetta væri eitthvað skrýtið,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, sem meiddist í leik við Stjörnuna í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar á mánudag.

Ragnar Bragi kinnbeinsbrotnaði eftir samstuð við Daníel Laxdal og verðu frá keppni næstu vikurnar. Hann ræddi við Svövu Kristínu Gretarsdóttur í Sportpakkanum á Stöð 2:

„Þetta er drullusvekkjandi og ansi pirrandi, að missa af fyrsta heimaleiknum og næstu leikjum. Það er hörkubarátta fram undan. En við erum með stóran og sterkan hóp, góða stráka, svo það mun einhver fylla í skarðið fyrir mig á meðan,“ sagði Ragnar Bragi sem virðist hins vegar hafa sloppið við heilahristing:

„Ég dett ekkert út, rotast ekkert eða missi meðvitund, og man eftir öllu. Ég held ég hafi því sloppið nokkuð vel þar. Ég má ekki við því að skaddast mikið meira þar svo ég er nokkuð sáttur við það.“

Ummæli Rúnars fóru í taugarnar á Fylkismönnum

Nokkuð hefur verið rætt um þá staðreynd að Ólafur Ingi Skúlason fékk rautt spjald fyrir slæma tæklingu á Alex Þór Hauksson - brotið kallaði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnumanna árás - en Daníel var ekki áminntur fyrir brot sitt á Ragnari Braga.

„Það er fullt af umræðu sem er bara nauðsynlegt að taka eftir svona leik. Hver er munurinn á því að fara of seint í tæklingu eða of seint í svona skallabolta. Af hverju er ekki alveg eins einhver afleiðing af því, alveg eins og af því að tækla á jörðinni? Í rauninni getur þetta verið mikið alvarlega en einhver tækling í lappir. En ég er ekki að segja á nokkurn hátt að Daníel hafi verið að reyna þetta eða eitthvað slíkt. Þetta var bara óheppni, hann seinn í návígi, en það hefði alveg mátt gera eitthvað,“ sagði Ragnar Bragi, sem kveðst ekki óánægður með rauða spjaldið sem Ólafur Ingi fékk:

„Eins og Óli segir sjálfur þá var hann of seinn og fékk réttilega spjald fyrir það, en það sem pirrar okkur Fylkismenn verulega er að þjálfari Stjörnunnar skuli fara í viðtal og ásaka Óla um að þetta hafi verið árás og eitthvað þvíumlíkt, sem er hálfglórulaust. Það fer aðeins í taugarnar á okkur.“

Klippa: Sportpakkinn - Ragnar Bragi kinnbeinsbrotnaði gegn Stjörnunni

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×