Umfjöllun: KR - HK 0-3 | HK vann ótrúlegan sigur á Íslandsmeisturunum í Frostaskjóli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
HK-ingar fagna einu marki sínu á Meistaravöllum í kvöld.
HK-ingar fagna einu marki sínu á Meistaravöllum í kvöld. Vísir/Haraldur Guðjónsson

HK vann ótrúlegan 3-0 sigur á KR á Meistaravöllum í Vesturbænum í síðasta leik dagsins í Pepsi Max deildinni. Mörk gestanna skoruðu Valgeir Valgeirsson, Birkir Valur Jónsson og Jón Arnar Barðdal.

Leikurinn hófst nokkuð rólega en Íslandsmeistararnir voru þó með öll völdin á vellinum framan af. Gestirnir lágu aftarlega og ætluðu augljóslega að beita skyndisóknum hér á Meistaravöllum í dag. Má segja að það leikplan hafi gengið fullkomlega upp.

KR-ingar virkuðu nokkuð vanstilltir í fyrri hálfleik en fengu þó slatta af því sem við flokkum sem hálffæri á góðum degi. Óskar Örn Hauksson setti boltann til að mynda í stöng í fyrri hálfleik en gestirnir voru sprækir þegar þeir sóttu. Þá sérstaklega Birnir Snær Ingason og áðurnefndur Valgeir.

Varnarmenn KR áttu í stökustu vandræðum þegar Birnir og Valgeir komu hlaupandi á þá og þannig kom fyrsta mark leiksins. Undir lok fyrri hálfleiks áttu gestirnir frábæra skyndisókn þar sem Birnir Snær sendi frábæran bolta frá vinstri yfir á hægri. Þar renndi Jón Arnar Barðdal boltanum á Valgeir sem keyrði á Gunnar Þór Gunnarsson.

Gunnar Þór vissi ekki sitt rjúkandi ráð og bakkaði frá Valgeiri sem var í þröngu færi en negldi boltanum nánast í gegnum Beiti Ólafsson, markvörð KR. Langt frá því óverjandi en frábær afgreiðsla hjá hinum unga Valgeiri.

Skömmu síðar var flautað til hálfleiks.

Valgeir átti frábæran leik í liði HK í dag.Vísir/Haraldur Guðjónsson

Í þeim síðari byrjuðu KR-ingar betur og áttu nokkur hálffæri. Þó ekkert af viti og svo allt í einu þegar tæplega klukkustund var liðin var staðan orðin 2-0 yfir HK.

Birkir Valur skoraði þá með skoti innan úr vítateig sem fór í Gunnar Þór – að mér sýndist – og yfir Beiti í markinu. Hægri bakvörðurinn hafði komið með í sóknina eftir að Ásgeir Börkur hafði rennt knettinum á Valgeir sem keyrði að endalínunni. Valgeir gaf út og Birkir negldi á markið utarlega úr teignum. Staðan orðin 2-0 gestunum í vil og góð ráð dýr hjá íslandsmeisturunum.

Þeir voru nálægt að koma sér inn í leikinn skömmu síðar. Boltinn barst þá – aftur eftir hornspyrnu – á Óskar Örn á fjærstöng en Sigurður Hrannar Björnsson gerði frábærlega í marki HK. Óð hann út og lokaði færinu fyrir Óskar sem þrumaði boltanum í markvörðinn.

Í raun var það eina alvöru færi KR-inga þar sem boltinn rataði á markið. Þeir áttu haug af hornspyrnum, aukaspyrnum og fyrirgjöfum sem voru hársbreidd frá því að valda usla en aldrei vaðr neitt úr þeim.

Það var svo í blálokin sem Jón Arnar Barðdal tryggði endanlega sigurinn. Hann vann boltann eftir mistök í vörn KR og vippaði yfir Beiti. Lokatölur 3-0 en HK hefur nú skorað níu mörk í síðustu þremur viðureignum sínum gegn KR.

Af hverju vann HK?

Það er góð spurning. Líkt og í Kórnum á síðustu leiktíð - þar sem HK vann 4-1 sigur - þá nýttu þeir færin sín fullkomlega. Það virðist henta HK liðinu mjög vel að sitja til baka gegn KR og nýta þau svæði sem KR-ingar skilja eftir þegar þeir sækja. Þá voru KR-ingar mjög vanstilltir í dag og í raun ekkert líkir sjálfum sér.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er hægt að nefna allt HK-liðið. Jón Arnar var frábær í framlínunni sem og Valgeir. Þá var Birnir Snær alltaf hættulegur þegar hann fékk boltann. Fremstu þrír skiluðu líka mikilli varnarvinnu. Sigurður Hrannar var magnaður í markinu miðað við að hann hefur ekki byrjað leik í guð má vita hvað langan tíma. Varnarlína HK steig svo varla feilspor þó Hörður Árnason hafi átt erfitt uppdráttar framan af.

Hvað gekk illa?

Heimamönnum gekk ill að ná til boltans inn í teig gestanna. Þeim gekk illa að koma boltanum á markið en þeir voru nokkuð oft í mjög góðum stöðum.

Hvað gerist næst?

KR hemsækir Skagamenn upp á Skaga á meðan HK-ingar fá Val í heimsókn í Kórinn.

Sigurður Hrannar var frábær í marki HK í kvöld.Vísir/Haraldur Guðjónsson

Sigurður Hrannar: Þetta er ekki það sem maður bjóst við að fara með héðan í dag

„Mér hefur bara sjaldan liðið betur. Mér líður mjög vel, þetta er bara ótrúlegt. Þetta er ekki það sem maður bjóst við að fara með héðan í dag,“ sagði Sigurður Hrannar, markvörður HK, um sína líðan að leik loknum.

„Ég kem inn á móti FH og leið bara mjög vel. Fannst ég bara eiga fínasta leik en svo er bara eitt móment og boltinn inni. Ég var samt ekkert að hafa alltof miklar áhyggjur af því,“ sagði Sigurður um frammistöðu sína í þessum tveimur leikjum til þessa. Hafði hann fengið gagnrýni fyrir sigurmark FH í leik liðanna á dögunum en hann sýndi allar sínu bestu hliðar í Vesturbænum í kvöld.

„Það er góð spurning. Arnar (Freyr Ólafsson) er aðalmarkvörður þessa liðs og það verður bara að koma í ljós hversu lengi hann er frá. Arnar er að mínu mati í topp þremur yfir bestu markverði í þessari deild svo það verður erfitt að slá hann út en ég fylli í skarðið á meðan hann er í burtu,“ sagði Sigurður auðmjúkur um framhaldið eftir frammistöðu kvöldsins.

„Sko ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá pældi ég voða lítið í því. Pældi bara í að mæta hérna og standa mig. Það var ekki biluð trú hérna fyrir leik í vikunni en ég hafði engar áhyggjur af mér né liðinu vegna þessara meiðsla. Sérð bara Jón Barðdal, kemur inn frábær í dag og tróð sokka ofan í alla þessa gaura,“ sagði Sigurður að lokum og skaut léttum skotum á þá sem virtust enga trú hafa á HK liðinu eftir tapið gegn FH.

Birkir Valur var frábær varnar- og sóknarlega í dag.Vísir/Haraldur Guðjónsson

Birkir Valur: Ætli ég hefði ekki tekið þrjú stig úr fyrstu tveimur leikjunum fyrirfram

„Já ég myndi segja það. Vorum flottir varnarlega og sköpuðum okkur nóg af færum ásamt því að nýta þau vel,“ sagði Birkir Valur aðspurður hvort sigur HK hefði verið hinn fullkomni leikur.

„Ég myndi ekki segja það. Þeir sækja á mörgum mönnum og skilja eftir smá svæði. Við erum með hraða fram á við sem við getum nýtt vel,“ sagði bakvörðurinn um hvort það væri þægilegt að spila við KR en engu liði virðist líða jafn vel gegn Íslandsmeisturunum og HK.

„Já ég hugsa það bara. Við vildum fá þrjú stig í Kórnum síðast. Klúðruðum því þarna á síðustu fimm mínútunum en já ætli ég hefði ekki tekið því fyrirfram að fá þrjú stig úr síðustu tveimur leikjunum,“ sagði Birkir að lokum.

Þjálfarateymi HK gat verið ánægt með lið sitt í leiknum.Vísir/Bára

Brynjar Björn: Þetta eru fullkomin úrslit

„Já þetta eru fullkomin úrslit. Þetta var góður leikur af okkar hálfu, við stóðum af okkur smá stórskotahríð um miðjan seinni hálfleik en skorum þrjú frábær mörk og held mjög verðskulduð lokastaða,“ sagði Brynjar Björn, þjálfari HK, aðspurður hvort þetta hefði verið hinn fullkomni leikur hjá HK-ingum.

„Náðum að snúa því í hag. Gerðum ekki mistök sem við gerðum í síðasta leik. Vorum búnir að fara yfir það og tala um það. Vorum mjög fókuseraðir yfir því og koma hérna með svipað leikskipulag en skorum líka þrjú góð mörk úr frábærum sóknum,“ sagði Brynjar um muninn á leik kvöldsins og síðasta leik HK sem tapaðist 3-2 á móti FH.

HK-ingar skoruðu samtals sex mörk gegn Íslandsmeisturum KR í fyrra. Tvö í Vesturbænum og fjögur í Kórnum. Mörkin eru því orðin níu í aðeins þremur leikjum. Brynjar var einfaldlega spurður hvað veldur.

„Ég veit það bara ekki,“ sagði Brynjar og hló áður en hann hélt áfram.

„Þeir spila með marga frammi. Þeir henda báðum bakvörðunum upp og það hentar leikstíl okkar ágætlega þegar við liggjum svona til baka. Að sama skapi getum við spilað okkur ágætlega upp völlinn líka og komið okkur í skot- og fyrirgjafastöður.“

„Ég held við megum fara búast við 1-2 meiðslum í hverjum leik. Við erum með tvo leikmenn sem eru ekki með leikheimild í dag og ég ætla að fara vona að þeir fari að koma inn í hópinn,“ sagði Brynjar um stöðuna á leikmannahópi HK. 

Rúnar: Þeir hentu sér fyrir allt og fórnuðu lífi sínu í þetta

„Mjög margt sem fer úrskeiðis. Við spilum ekki alveg nægilega hraðan leik í fyrri hálfleik og ég vonaðist til að við kæmust inn í hálfleikinn í 0-0. Þeir skora svo nánast á síðustu mínútunni sem er ekki góð staða því HK er vel skipulagt lið með mikinn hraða og góðar skyndisóknir. Þeir verjast vel, það er erfitt að brjóta þá á bak aftur og okkur tókst það ekki í dag,“ sagði Rúnar um hvað hefði farið úrskeiðir hjá KR í dag. 

Hann hélt svo áfram.

„Þeir hentu sér fyrir allt, fórnuðu lífi sínu í þetta, vörðust vel og gerðu okkur mjög erfitt fyrir. Nýttu sín tækifæri og unnu þennan leik sanngjarnt,“ sagði Rúnar einnig.

„Nei nei ekkert sérstakt. Við þurfum að vera flinkari að leysa þessar stöður sem við fáum í fyrri hálfleik. Við finnum ekki réttu sendinguna, finnum ekki réttu fyrirgjafirnar og klárum ekki færin sem við fáum. Eins og ég sagði þá hentu þeir sér fyrir alla bolta, bjarga á línu og svo fáum við eitt í andlitið rétt fyrir hálfleik sem er ekki gott því þá geta þeir farið aðeins meira í skotgrafirnar og varið sitt mark. Tala nú ekki um þegar þeir komast í sínar skyndisóknir sem þeir eru mjög góðir í,“ sagði Rúnar aðspurður út í hvað veldur að HK hafi nú skorað níu mörk í þremur leikjum gegn KR.


Tengdar fréttir

Brynjar Björn: Þetta eru fullkomin úrslit

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, var eðlilega mjög sáttur eftir ótrúlegan 3-0 sigur á Íslandsmeisturum KR í Vesturbænum í síðasta leik dagsins í Pepsi Max deild karla.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira