Innlent

Áfall að greinast með kórónuveiruna eftir lögreglustörf

Sylvía Hall skrifar
Íris Edda Heimisdóttir starfar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hún hefur nú verið í einangrun í tvo daga eftir að hún greindist með kórónuveiruna.
Íris Edda Heimisdóttir starfar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hún hefur nú verið í einangrun í tvo daga eftir að hún greindist með kórónuveiruna. Vísir/Aðsend/Vilhelm

Íris Edda Heimisdóttir, lögreglukonan sem smitaðist af kórónuveirunni eftir að hafa tekið þátt í aðgerðum vegna Rúmenanna sem komu hingað til lands í síðustu viku, segir það hafa verið áfall að greinast með veiruna eftir að hafa sinnt starfi sínu. Líf hennar hafi verið sett á ís og það sé erfitt að geta ekki umgengist fjölskyldu sína.

Niðurstaða sýnatöku leiddi í ljós að Íris væri smituð fyrir tveimur dögum síðan. Hún hefur verið í einangrun síðan og segir hún það hafa tekið á, en hún ætli sér að takast á við þetta með jákvæðnina að vopni.

„Ég reyni að skipuleggja hvern dag, svo hver dagur hafi tilgang. Hugsa mikið um börnin mín, maka og fjölskyldu, þau hjálpa mér að vera jákvæð. Ég tala nú ekki um félagastuðninginn, samstarfsfélaga sem hafa komið hlaupandi og aðstoðað á öllum vígstöðvum. Ég er afar þakklát fyrir það,“ segir Íris í samtali við Vísi.

Fékk fljótlega ónotatilfinningu þegar hún var send í sóttkví

Íris starfar hjá lögreglunni á Suðurlandi og var á meðal þeirra lögreglumanna sem voru sendir í sóttkví eftir að hafa verið í samskiptum við mennina þegar þeir voru handteknir. Hún segir eftir á að hyggja ekki hafa komið á óvart að hún hafi smitast, enda var hún í miklum samskiptum við þá.

„Ég fór að fá ónotatilfinningu með þetta fljótlega eftir að við vorum komin í sóttkví. Ef einhver af okkur hefði fengið þetta þá hefði ég sennilega verið líklegust þar sem að ég var í þeirri stöðu að vera í miklum samskiptum við þessa aðila í langan tíma í ekki svo stóru rými. En niðurstaða barst svo eftir 4 daga í sóttkví. Það var mikið áfall,“ segir Íris.

Hún segir helstu einkenni vera hefðbundin flensueinkenni en hún sé þó alveg raddlaus. Nú taki við bataferli sem tekur vonandi stuttan tíma.

„Hálsbólgu, slím í hálsi sem leiðir niður í lungu og beinverki. Þannig er staðan á mér í dag.“

Hún segir það hafa verið óvænt og erfitt að greinast með veiruna nú þegar útlit var fyrir að faraldurinn væri á niðurleið.

„Vissulega var það áfall. Ég var búin að leyfa mér að vona það að ég myndi sleppa. Ég var með þá von í huga að þetta væri að taka enda eða að veiran væri allavega á niðurleið, sem að ég vissi ekki betur en að hefði verið.“

Þá bjóst hún alls ekki við því að greinast með veiruna við það eitt að sinna starfi sínu.

„Ég vissi heldur ekki betur en að landið hefði átt að vera lokað. Það var ekkert sem benti til þess að þessir aðilar hefðu verið að koma til landsins.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×