Erlent

Trump tilkynnir breytingar á löggæslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump skrifaði undir tilskipunina umkringdur löggæsluaðilum.
Donald Trump skrifaði undir tilskipunina umkringdur löggæsluaðilum. AP/Evan Vucci

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði í dag undir forsetatilskipun sem ætlað er að leiða til endurbóta á löggæslu þar í landi. Meðal annars á tilskipunin að banna lögregluþjónum að notast við hálstök, nema þegar lífi þeirra er ógnað, og stendur til að stofna gagnagrunn þar sem haldið er utan um brot lögregluþjóna í starfi.

Umfangsmikil mótmæli gegn ofbeldi lögregluþjóna og kerfisbundinni mismunun gagnvart þeldökku fólki hefur átt sér stað á undanförnum vikum. Á mjög skömmum tíma virðist sem að almenningsálit í Bandaríkjunum hafi tekið stakkaskiptum, samhliða mótmælum þessum.

Repúblikanar hafa lagt kapp á að koma til móts við mótmælendur og almenning, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Trump sjálfur hefur þó ekki sagt að lögreglan eigi við kerfisbundinn vanda að etja og hefur hann margsinnis sagt að lögreglan þurfi að taka harðar á óeirðarseggjum og öðrum. Hann segist einnig sannfærður um að litlum fjölda vondra lögregluþjóna sé um að kenna. Ítrekaði hann það í dag.

„Það að draga úr glæpum og bæta staðla eru ekki andstæð markmið,“ sagði forsetinn áður en hann skrifaði undir tilskipunina.

Breytingar Trump og Repúblikana eru ekki jafn umfangsmiklar og Demókratar og aðrir höfðu vonast eftir. Báðar deildar þingsins vinna nú að eigin frumvarpi og óljóst er hvort að Demókratar, sem stjórna fulltrúadeildinni, og Repúblikanar, sem stjórna öldungadeildinni, getu komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Frá því að George Floyd dó á grimmilegan máta í haldi lögreglu hafa hundruð þúsunda mótmælt á götum Bandaríkjanna. Í fyrstu var nokkuð um óeirðir og hefur til átaka komið á milli mótmælenda og lögreglu.

Meðal þess sem mótmælendur hafa farið fram á er að grundvallarbreytingar verði gerðar á löggæslu í Bandaríkjunum. Dregið verði úr fjármagni til lögreglu, hlutverk hennar endurskoðað og meira fé veitt í samfélagslega mikilvæg málefni eins og geðheilsu og aðstoð við heimilislaust fólk.

Borgaryfirvöld hafa víða gripið til aðgerða og gert breytingar á löggæslu í viðkomandi borgum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.