Erlent

Lætur af störfum eftir að lögregla skaut svartan mann til bana í Atlanta

Atli Ísleifsson skrifar
Erika Shields hafði gegnt stöðu lögreglustjóra Atlanta frá desember 2016 og starfað þar í rúm tuttugu ár.
Erika Shields hafði gegnt stöðu lögreglustjóra Atlanta frá desember 2016 og starfað þar í rúm tuttugu ár. AP

Lögreglustjóri Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum hefur látið af störfum eftir að lögreglumaður skaut svartan mann til bana í borginni á föstudagsskvöldið. Hinn 27 ára Rayshard Brooks hafði sofnað í bíl sínum við bílalúgu veitingastaðar og var skotinn eftir átök við lögregu.

Keisha Lance Bottoms, borgarstjóri Atlanta, sagði að lögreglustjórinn Erika Shields hafi skilað inn uppsagnarbréfi sínu í gær. Mikil mótmæli voru í borginni um helgina þar sem aðgerða var krafist í kjölfar dauða Brooks.

Eldur var borinn að Wendy's staðnum í nótt.AP

Kveiktu í Wendy's-staðnum

Mótmælendur komu fyrir vegartálmum í borginni á fjölförnum þjóðvegi í gær, þjóðvegi númer 75. Þá var kveikt í Wendy‘s veitingastaðnum þar sem Brooks dó.

Mótmæli hafa verið áberandi víðs vegar um Bandaríkin síðustu þrjár vikurnar vegna dauða George Floyd. Hann dó eftir að lögreglumaður hafi haldið Floyd í götunni með því að þrýsta hnénu að hálsi Floyd í tæpar níu mínútur. Floyd dó af völdum köfnunar.

Shields hefur gegnt stöðu lögreglustjóra borgarinnar frá desember 2016 og starfa þar í rúm tuttugu ár. Hún mun áfram starfa innan lögreglunnar, sagði Bottoms borgarstjóri.

Umræddur Wendy's staður í Atlanta.EPA

Átök við lögreglu

Rannsókn á dauða Brooks hefur leitt í ljós að lögregla hafi verið kölluð að Wendy‘s staðnum eftir að tilkynnt hafi verið um mann sofandi í bíl sínum og stíflað röðina í bílalúguna. Að sögn lögreglu fór Brooks ekki að fyrirmælum þegar hann var handtekinn í kjölfar þess að hann hafa  mælst með of magn áfengis í blástursmæli.

Á myndbandi sjónarvotts sést til Brooks þar sem hann er á jörðinni fyrir utan veitingastaðinn í átökum við tvo lögreglumenn. Hann hrifsar rafbyssu af öðrum lögreglumannanna og hleypur svo í burtu. Hinn lögreglumaðurinn beitir rafbyssu sinni og hlaupa þeir svo á eftir Brooks og út úr ramma myndbandsins. Þá heyrast skothljóð og loks sést Brooks liggjandi á jörðinni.

Annar lögreglumannanna sem kom þarna við sögu hefur verið látinn fara og hinn er kominn í leyfi frá störfum. Sá fyrrnefndi hafði starfað í sex ár innan lögreglunnar en hinn í tvö ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×