Erlent

Minnst tuttugu indverskir hermenn féllu í átökum við Kínverja

Samúel Karl Ólason skrifar
Indverskir menn brenna mynd af Xi Jinping, forseta Kína, í mótmælum í Indlandi í dag.
Indverskir menn brenna mynd af Xi Jinping, forseta Kína, í mótmælum í Indlandi í dag. AP/Ajit Solanki

Minnst tuttugu indverskir hermenn féllu í átökum við kínverska hermenn á landamærum ríkjanna í gærkvöldi og í nótt. Svo virðist sem að ofursti og tveir hermenn indverska hersins hafi fallið fyrst. Yfirvöld Indlands segja átökin vera Kínverjum að kenna en þau eru þau mannskæðustu á landamærunum í áratugi og spennan þar hefur magnast til muna að undanförnu. Kína segir atvikið Indverjum að kenna.

Indverjar segjast hafa hlerað samskipti Kína um að minnst 43 hermenn þeirra hafi fallið eða særst alvarlega.

Til stríðs kom á milli Indlands og Kína árið 1962 og unnu Kínverjar það með afgerandi hætti. Nú búa bæði Indverjar og Kínverjar yfir kjarnorkuvopnum. Þetta er í fyrsta sinn sem mannfall verður á landamærum ríkjanna í Himalæjafjöllum í það minnsta 45 ár. Indverjar segja hermönnum Kína hafa fjölgað verulega á svæðinu að undanförnu. Þeir saka Kína um að hafa hernumið land Indlands og viðræður sem hafa staðið yfir í þrjá áratugi hafa engum árangri skilað.

AFP fréttaveitan hefur eftir Utanríkisráðuneyti Kína að Indverskir hermenn hafi fyrstir farið yfir landamærin og ráðist á kínverska hermenn. Kínverjar hafa þó ekki sagt neitt opinberlega um mögulegt mannfall.

Í frétt BBC segir að báðar hliðar hafi um árabil haldið því fram að engum skotum hafi verið skotið á landamærunum og það sama sé á teningnum núna. Indverski herinn hélt því fram í dag. Nokkrum sinnum hefur komið til átaka á milli hermanna ríkjanna á undanförnum vikum og mun engu skoti hafa verið hleypt af. Síðast skiptust hermenn á skotum yfir landamærin árið 1975, svo vitað sé.

Í mái kom til umfangsmikilla slagsmála á milli hermanna og munu tugir hafa slasast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×