Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Fjölnir 1-1 | Nýliðarnir náðu í stig gegn bikarmeisturunum

Árni Jóhannsson skrifar
Óttar Magnús Karlsson

Það var mikil spenna fyrir leik Víkings og Fjölnis sem fór fram í Víkinni í fyrstu umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu fyrr í dag. Fólk var spennt að sjá Víking sem spila góðan fótbolta og hvort að Fjölnir yrði fallbyssufóður fyrir hin liðin í deildinni. Báðar staðhæfingar virðast í fyrstu vera rangar.

Víkingur var betri aðilinn í fyrri hálfleik en skapaði þó ekki mörg færi. Þeir komust yfir þegar Óttar Magnús Karlsson skoraði beint úr aukaspyrnu sem átti engan rétt á því að fara inn. Fjölnismenn mættu svo mikið ákveðnari út í seinni hálfleikinn og voru betra liðið þá og uppskáru eitt mark.

Markið kom eftir klafs og vandræðagang í teig Víkings eftir hornspyrnu þar sem Arnór Breki Ásþórsson náði að hnoða boltanum yfir línuna og í markið.

Eftir markið færðist aukin harka í leikinn og var dálítið um pústra og aðhlynningu leikmanna í kjölfarið. Enda þurfti að bæta níu mínútum aftan við seinni hálfleik en sá fyrri hafði verið 45 mín. sléttar. Bæði lið náðu ágætis sóknum og hefðu getað stolið sigrinum en leik lauk með jafntefli 1-1.

Afhverju endaði leikurinn með jafntefli?

Hvorugt lið náði að nýta sóknir sínar en margar álitlegar sóknir litu dagsins ljós. Þá held ég að hugarfar leikmanna hafi skipt máli í kvöld en Víkingur var betri í fyrri hálfleik en voru mikið daufari í þeim seinni og fékk maður á tilfinninguna að þeir héldu að verkið væri unnið eftir að hafa skorað eitt mark í þeim fyrri. Fjölnir hinsvegar mætti út í seinni hálfleikinn af eldmóði, vissir um að þeir gætu fengið eitthvað útúr leiknum og það heppnaðist.

Hvað gekk illa?

Færanýtingin gekk illa eins og áður sagði en annars var þessi leikur ágætur á að horfa og minni vorbragur en maður þorði að vona.

Bestu menn vallarins?

Hjá heimamönnum var Óttar Magnús í sviðsljósinu en hann var duglegur að koma og taka þátt í spilinu sem oft kom hans mönnum í góðar stöður.

Hjá Fjölni var Ingibergur Kort sprækur ásamt því að aftasta línan náði að halda Víking í skefjum og átti Atli Gunnar Guðmundsson stórkostlega markvörslu í lok leiks sem að öllum líkindum gulltryggði stigið.

Hvað gerist næst?

Fjölnir fær heimaleik næst á móti Stjörnunni sem er annað lið sem er til alls líklegt í sumar og er þar tækifæri fyrir Grafarvogsbúa að verja heimavígið sitt. Víkingur leggur land undir fót og fer norður til að takast á við KA. Fossvogspiltar þurfa að vera fljótir að sleikja sárin og gera allt sem þeir geta til að byrja að standa undir væntingunum sem gerðar eru til þeirra í sumar.

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunnivísir/bára

Arnar Gunnlaugsson: Það vantaði svolítið leiðtoga inn á

Þjálfari Víkings var að vonum svekktari af þjálfurunum eftir úrslit leiksins fyrr í kvöld þegar Víkingur og Fjölnir mættust í Víkinni. Leikar enduðu 1-1 en heimamenn voru betri aðilinn í fyrri hálfleik en Fjölnismenn ákveðnari í þeim seinni og var hann spurður að því hvort þetta hefðu ekki bara verið sanngjörn úrslit þegar upp var staðið.

„Já já, Fjölnir voru mjög flottir og voru grimmari en við í öllum návígjum og jafnteflið var bara sanngjarnt. Við vorum bara heppnir að tapa ekki í dag því við vorum eiginlega hrikalega off í öllum okkar aðgerðum þannig að ég er bara gríðarlega sáttur við þetta stig“.

Arnar talaði um það fyrir leik að lið þyrftu jafnvel 1-2 umferðir til að komast í taktinn eftir Covid-19 pásuna og var hann sömu skoðunar eftir leik og að jafnvel þyrfti fleiri umferðir til að ná sér á strik.

„Ég ætla að breyta því í 3-4 umferðir“, sagði Arnar og hló og hélt svo áfram: „Við vorum rosalega þungir einhvernveginn og lítill taktur í okkur. Menn koma bara misvel undan þessu ævintýri síðustu tveggja eða þriggja mánaða og það er ósköp eðlilegt. Við verðum bara að sýna þolinmæði og gefa þeim tíma. Hafandi sagt það þá að á meðan þú ert að spila illa þá verður þú að safna stigum með því að nota hausinn. Við eigum að vera með næginlega mikla reynslu til að sigla svona leikjum heim þó svo að við séum að ströggla og það er augljóst að við erum að ströggla“.

„Við verðum samt bara að slaka á. Maður hefur lært það að maður á ekkert að vera að gaspra eftir svona leiki. Vonbrigðin eru bara svo mikil, menn voru líka yfirspenntir og þegar það gerist þá spilar maður gegn sjálfum sér. Reyndari menn verða þá að draga vagninn fyrir okkur og þessa yngri leikmenn. Við vorum bara hrikalega svekktir með sjálfa okkur, við vorum daprir þannig að leiðin hlýtur að liggja upp“.

Arnar var þá spurður út í það hvort það vantaði upp á að þessir reyndari menn væru að draga vagninn fyrir þá.

„Já það vantaði svolítið leiðtoga inn á til að hafa hausinn í lagi. Sérstaklega þegar líða fór á leikinn þá ætluðum við að skora 10 mörk í hverri einustu sókn í staðinn fyrir að stilla okkur aðeins af og fara back to basics og gera það sem við höfum verið að gera vel síðustu 10 mánuði. Við misstum aðeins hausinn og þurftum aðeins að róa okkur niður. Eftirvæntingin var samt mikil, ég hef verið áður í þessum sporum sem leikmaður þannig að þeim er fyrirgefið. Við þurfum að vera fljótir að koma okkur niður og gíra okkur upp fyrir næsta leik“.

Ásmundur Arnarsson: Við virðum þetta stig

„Þetta var á köflum ágætisleikur, það komu á köflum flottir spilkaflar en við fáum á okkur dálítið leiðinlegt aukaspyrnumark. Svona undir vegginn sem á ekki að gerast og við erum ósáttir við það en náum að komast inn í leikinn. Svo eftir að við skorum þá leysist leikurinn svolítið upp, það verður svolítið mikill barningur og virtist vera komin önnur íþrótt þarna en menn lágu með höfuðhögg þarna hægri vinstri. Undir lok leiks langaði mann svo að stela öllu þremur stigunum“, sagði þjálfari Fjölnismanna þegar hann var spurður að því hvernig honum hefði fundist leikurinn. Hann var einnig spurður að því hvort þetta hefðu ekki verið sanngjörn úrslit þegar öllu væri á botninn hvolft.

„Það er held ég hægt að leggja þetta þannig upp að jafntefli hafi verið sanngjörn úrslit“.

Næst var Ásmundur beðinn um að spá fyrir um framtíðina en það eru ekki margir sem hafa trú á því að Fjölnir afreki nokkurn skapaðan hlut í deildinni í sumar en stigið í kvöld var mjög gott stig á útivelli.

„Gott að ná í stig á útivelli þó maður vilji alltaf fá meira en við virðum þetta stig og mjög gott að komast á blað í fyrsta leik. Framhaldið er svo bara barátta en hver einasti leikur er barátta upp á líf og dauða og við verðum að vera klárir á móti Stjörnunni“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira