Innlent

Mennirnir tveir sem voru handteknir eru með virk smit

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mennirnir verða fluttir á farsóttarhúsið við Rauðarárstíg á morgun.
Mennirnir verða fluttir á farsóttarhúsið við Rauðarárstíg á morgun. Vísir/Friðrik Þór

Mennirnir tveir sem voru handteknir á Suðurlandi vegna búðarhnupls í gær og greindust með kórónuveiruna í dag verða fluttir í farsóttarhúsið við Rauðarárstíg á morgun. Þeir reyndust ekki vera með mótefni við veirunni og eru því með virk smit og geta smitað aðra. Alls voru þrír handteknir í gær, en tveir þeirra reyndust smitaðir.

Þetta staðfesti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu í kvöld. Hann segir að mennirnir verði á Selfossi í nótt. Á morgun verður þeim komið í farsóttarhúsið þar sem þeir verða í einangrun.

„Á morgun þá hitta þeir lækni og það verður farið yfir málið með þeim. Þeir eru ekki orðnir veikir en þurfa að komast undir læknishendur til skoðunar.“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.Vísir/Vilhelm

Alvarlegasta brotið á sóttkví

Víðir segir að málið sé langalvarlegasta brot á sóttkví sem komið hefur upp hér á landi síðan samfélagslegum takmörkunum var komið á vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Hann segir að mennirnir geti átt von á sektum vegna brots á sóttkví.

„Það má reikna með því að þeir þurfi að ganga frá þeim málum þegar fram í sækir,“ segir Víðir. Hann segir málið vera á frumstigi, en að brotið á sóttkví sé rannsakað samhliða öðrum brotum sem mennirnir eru grunaðir um, það er að segja búðarhnuplinu.

Vita hverjir hinir mennirnir eru en ekki hvar

Víðir segir að nú sé þriggja annarra manna leitað vegna málsins. Þeir komu til landsins ásamt þeim þremur sem voru handteknir.

„Þeir voru sex saman sem komu til landsins og við erum að reyna að ná til þeirra þriggja sem voru ekki með í þessu verkefni þeirra. Bæði viljum við ná til þeirra því þeir eiga að vera í sóttkví, en ekki síst vegna þess að við teljum hættu á því að þeir séu hugsanlega veikir líka,“ segir Víðir.

Hann segir vitað um hvaða menn ræðir, en ekki sé vitað hvar þeir haldi sig nú.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×