Erlent

Lögregla og mótmælendur tókust á í London

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mótmælandi sem mótmælti mótmælum Black Lives Matter hreyfingarinnar er hér í átökum við lögreglu.
Mótmælandi sem mótmælti mótmælum Black Lives Matter hreyfingarinnar er hér í átökum við lögreglu. Jonathan Brady/AP

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í bresku höfuðborginni London í dag. Mótmælendurnir sem um ræðir söfnuðust saman í miðborginni, og sögðust vera að vernda styttur á svæðinu frá and-rasískum aðgerðasinnum.

Upp á síðkastið hefur borið á því að styttur af umdeildum mönnum hafi verið felldar og skemmdar. Sem dæmi má nefna að mótmælendur í Bristol í Englandi tóku styttu af þrælasalanum Edward Colston og hentu í höfn borgarinnar.

Í myndbandi sem breska ríkisútvarpið BBC birtir af mótmælunum sést þar sem mótmælendur veitast ítrekað að lögreglu og kasta flöskum í átt að lögreglumönnum.

Segja öfgahópa hafa komið til London sérstaklega til að mótmæla

Samkvæmt BBC hafa ýmsir hópar flykkst víða að til London, í þeim meinta tilgangi að vernda þær styttur sem þar er að finna, og koma í veg fyrir að þær verði teknar niður. Þar á meðal eru hópar á hægri jaðar stjórnmálanna.

Greint er frá því að hundruð mótmælenda, aðallega hvítir karlmenn, hafi safnast saman í kringum Cenotaph-minnismerkið um síðari heimsstyrjöldina og styttu af Winston Churchill á Parliament-torgi. Þá eru margir mótmælendanna sagðir hafa lyft upp höndum sínum og kyrjað „England,“ líkt og þeir væru staddir á íþróttakappleik.

Reyndu að mæta and-rasískum mótmælendum

Lögregla reyndi eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að umræddir mótmælendur kæmust í Hyde-garðinn í London, en þar fóru fram friðsamleg mótmæli gegn kynþáttafordómum.

Black Lives Matter-hreyfingin hafði fyrir fram brýnt fyrir fólki að mótmæla ekki nú um helgina, þar sem hætta væri á að til átaka við öfgahægrihópa kæmi.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, hefur fordæmt ofbeldið sem átti sér stað í dag og lýst því sem „óásættanlegri glæpamennsku.“

„Allir sem beita ofbeldi eða fremja skemmdarverk mega eiga von á því að lögin taki á þeim af fullum þunga. Ofbeldi í garð lögreglumannanna okkar verður ekki liðið,“ skrifaði hún og bætti við tilmælum um að fólk héldi sig heima til þess að draga úr áhættu á útbreiðslu kórónuveirunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×