Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - FH 3-0 | Nýliðarnir áttu aldrei möguleika í Kópavogi

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Agla María Albertsdóttir.
Agla María Albertsdóttir. Vísir/Bára

Breiðablik vann í dag nýliða FH í Pepsi Max deild kvenna 3-0 á Kópavogsvelli. Blikar komust yfir strax í upphafi leiks og voru aldrei nálægt því að kasta frá sér forystunni.

FH byrjuðu viðveru sína í Pepsi Max deildinni ekki nægilega vel en þær fengu á sig klaufalegt mark eftir hornspyrnu. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði markið en boltinn hafði farið í Heiðdísi Lillýardóttir áður en hann skoppaði yfir á Berglindi sem kláraði vel.

FH náðu síðan spila ágætan varnarleik út fyrri hálfleikinn en einu stóru færi Blika komu eftir einstaklingsframtök hjá Öglu Maríu sem fíflaði bakvörðinn trekk í trekk. Aníta Dögg var að verja vel í markinu hjá FH og þær spiluðu heilt yfir fínan varnarleik án þess að vera með einhvern sóknarleik samt.

Það er í rauninni bara ótrúlegt hvað Breiðablik var lengi að skora fyrsta markið sitt í seinni hálfleik. Þær fengu fullt af færum og á tímapunkti hélt maður að það væru einhver álög yfir markinu hjá FH. Aníta varði nokkrum sinnum frábærlega í markinu en síðan fór boltinn oft í tréverkið og rétt framhjá líka.

Stíflan brast í uppbótartímanum með tveimur mörkum frá Blikum. Alexandra Jóhannsdóttir skoraði skallamark eftir hornspyrnu frá Öglu Maríu. Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði síðan mark eftir að hún stal boltanum af Anítu Dögg Guðmundsdóttir í lokasókn leiksins.

Af hverju vann Breiðablik?

Breiðablik er eitt besta fótboltalið landsins í dag og það sást vel í dag. Þær stýrðu leiknum frá A til Ö og voru bara óheppnar að vinna leikinn ekki stærra.

Hverjar stóðu upp úr?

Sveindís Jane var stórhættuleg allan leikinn hjá Breiðablik og var besti maður vallarins. Berglind Björg, Karólína Lea og Alexandra áttu líka flotta leiki sóknarlega. Það var lítið að gera hjá Blika vörninni en FH náðu ekki að sækja mikið. Agla María var rosalega ógnandi í fyrri hálfleik en náði sér aldrei almennilega á strik í seinni hálfleik.

Í FH liðinu voru Sigríður Lára og Aníta Dögg bestar en þær náðu oft að bjarga erfiðum stöðum í vörninni.

Hvað gekk illa?

Allur sóknarleikur hjá FH í þessum leik gegn illa. Það voru nokkur skipti þar sem að maður hélt kannski að einhver væri að fara að sleppa í gegn en þá var hún alltaf ein og endaði á að missa boltann.

Hvað gerist næst?

Blikar fara austur á Selfoss í stórleik umferðarinnar. FH fara í Garðarbæinn þar sem þær munu spila við Stjörnuna.

Þorsteinn: Sköpuðum slatta af færum, vorum ekki að nýta þau

„Ég er sáttur. Við sköpuðum okkur slatta af færum. Við vorum bara ekki að nýta þau. Það var ágætis hreyfing á liðinu og það var jákvætt. Við vorum mikið að fá mikið af færum. Svona er þetta að það getur stundum verið strembið að skora en ég er að ánægður að hafa unnið og þetta snýst alltaf aðallega um það,” sagði Þorsteinn H Halldórsson þjálfari Blika ánægður eftir leikinn.

Það var kafli í seinni hálfleik þar sem það mætti halda að það væru einhver álög yfir markinu hjá FH. Blikar vöðuðu í færum en ekkert fór inn fyrr en í uppbótartímanum.

„Við sköpuðum okkur töluvert mikið af góðum færum þarna í seinni hálfleik. Við fengum einhver 2-3 mjög góð færi í fyrri hálfleik en síðan held ég að ég geti sagt frá einhverjum sjö ef ekki átta dauðafærum í seinni hálfleik. Við hefðum átt að nýta eitt af þessum færum fyrr í hálfleiknum.”

Á 58. mínútu fékk Alexandra Jóhannsdóttir gullt spjald fyrir leikaraskap eftir flottan sprett upp vinstri vænginn. Það sást að Blikar voru ekki sáttir með þann dóm en einhverjir hefðu eflaust viljað sjá vítaspyrnu dæmda.

„Ég sé það ekki almennilega. Ég er alveg 80 metrum frá þessu en ég á mjög erfitt með að sjá að þetta hafi verið dýfa. Þetta er stundum svona en mér fannst þetta skrítinn dómur.”

Sveindís Jane Jónsdóttir spilaði í dag sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik í Pepsi Max deildinni. Hún kom spræk inn í liðið og ógnaði makrinu hjá FH trekk í trekk.

„Sveindís var góð. Hún tætti upp kantinn hægri, vinstri og skapaði færi. Hún var líkleg allan tímann og hún er bara góð viðbót fyrir okkur.”

Mikið af færum Blikana kom úr innköstum frá Sveindísi en hún getur kastað vel inn í markteig. Þetta er eitthvað sem Blikar hafa verið að æfa og ætla að nýta sér í sumar.

„Hún kastar alveg ótrúlega langt og við höfum æft það. Vonandi förum við að skora úr þeim bara. ”

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir ein af mörgum landsliðskonum Blika var ekki í dag. Hún er vanalega fastamaður í byrjunarliðinu en í dag var hún ekki í hóp.

„Áslaug er meidd. Hún verður frá í einhvern tíma í viðbót en hún verður allavega ekki með næstu tvær vikurnar.”

Næsta fimmtudag fara Blikar á Selfoss til að spila við bikarmeistarana. Sá leikur verður eflaust gríðarlega spennandi en Selfoss eru búnar að bæta við sig hörku leikmönnum í vetur.

„Það er hörkuleikur. Það eru allir leikir erfiðir í þessari deild. Ef við ætlum að fara að nálgast hvern leik fyrir sig allt öðruvísi þá lendum við í vandræðum. Við nálguðumst þennan leik með mikilli virðingu fyrir FH liðinu. Það er ástæðan fyrir að við unnum í dag. Við mættum með rétta stemningu inn í leikinn. Við þurfum klárlega líka að vera klár í alvöru leik á móti Selfossi og vera með rétta hugarfarið þar.”

Þorsteinn var sáttur með leik sinna kvenna í dag.vísir/bára

Sigríður Lára: Við getum bara lært af þessu

„Ég er hrikalega stolt af liðinu mínu í dag. Við vorum að mæta sterku liði og mörkin komu úr föstum leikatriðum. Þetta var bara hrikalega svekkjandi. Við getum bara lært af þessu. Farið yfir þessi atriði á æfingum og komið tvíefldar tilbaka, ” sagði Sigríður Lára Garðarsdóttir fyrirliði FH eftir leikinn um frammistöðu FH.

FH fungi á sig mark eftir hornspyrnu bara eiginlega um leið og leikurinn byrjaði. Þetta var auðvitað svekkjandi byrjun en annars fengu Blikar lítið af færum í fyrri hálfleik.

„Þetta var bara einbeitingarleysi en við vörðumst ótrúlega vel.”

Sóknarleikur FH var ekkert til að skrifa fréttir um svo sem. Þær reyndu einstaka sinnum skyndisóknir en missti alltaf boltann langt áður en það myndaðist einhver alvöru hætta.

„Við áttum nokkrar skyndisóknir en við getum alltaf gert betur. Það er bara hægt að byggja ofan á það.”

„Við erum nýliðar og margar stelpur sem voru að spila sinn fyrsta leik í Pepsi Max deildinni svo það er bara hægt að byggja ofan á þetta. ”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira