Íslenski boltinn

Spekingarnir ekki vissir um að Hilmari Árna líði vel í traffík

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hilmar Árni hefur verið funheitur síðustu ár.
Hilmar Árni hefur verið funheitur síðustu ár. vísir/bára

Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar, hefur verið einn besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar undanfarin ár en hann hefur lengst af spilað á vinstri kantinum hjá Stjörnunni.

Í æfingaleikjum Stjörnunnar hefur Hilmar Árni verið ýmist að spila inni á miðjunni, sem fremsti miðjumaður, en þeir Atli Viðar Björnsson og Tómas Ingi Tómasson eru ekki vissir um að það henti Breiðhyltingnum að spila þar.

„Ég set stórt spurningarmerki við það að þeir ætli sér að gera úr honum einhvern holuspilara, að spila honum fremstum á miðjunni, miðað við hvað þeir fá svakalega mikið úr honum þarna vinstra megin,“ sagði Atli Viðar og Tómas Ingi tók í svipaðan streng.

„Það er betra fyrir hann að vera úti á kantinum. Hann er með meira svæði til þess að vinna með. Getur farið inn og notað löppina sína sem hann er svo frábær í. Þarna inni er svo lítill traffík og það er spurning hvort að það henti honum. Ég er ekki viss um það.“

Spekingarnir voru einnig sammála um mikilvægi Hilmars Árna í Stjörnuliðinu en hann skoraði þrettán mörk á síðustu leiktíð.

„Hann er svo ofboðslega mikilvægur liðinu að við getum alveg kallað hann tuttugu marka mann á tímabili, með stoðsendingum og mörkum. Hann þarf að halda bara áfram,“ sagði Tómas Ingi um Hilmar Árna.

„Ég held að það sé enginn leikmaður jafn mikilvægur sínu liði og Hilmar Árni er fyrir Stjörnunni. Hann er hæstur í marktilraunum og er hæstur á síðustu leiktíð í skotum í stöng og slá. Hann er allt í öllu,“ bætti Atli Viðar við.

Klippa: Pepsi Max-mörkin: Umræða um Hilmar Árna



Fleiri fréttir

Sjá meira


×