Íslenski boltinn

Víkingar fengu að færa fyrsta leik og geta tekið við 600 manns í viðbót

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar byrja Íslandsmótið á leik við Fjölni á mánudaginn.
Víkingar byrja Íslandsmótið á leik við Fjölni á mánudaginn. vísir/hag

Leikur Víkings R. og Fjölnis í 1. umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta hefur verið færður til um einn dag og þar með gætu 1.000 fullorðnir mætt á leikinn í stað 400.

Reglur um hámarksfjölda fólks á samkomum verða rýmkaðar á mánudaginn og hefur mótastjórn KSÍ orðið við beiðni bikarmeistaranna um að leikurinn við Fjölni fari fram þá, í stað sunnudags. Í stað þess að 200 manns megi koma saman á einum stað mega frá og með mánudegi 500 manns vera á sama svæði.

„Við eigum ekki gott með að vera með meira en tvö hólf í stúkunni okkar. Það hefðu því getað verið 2x200 manns en í staðinn geta verið 2x500 á leiknum,“ segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings. Miserfitt er að skipta áhorfendastæðum upp á heimavöllum liðanna en á leik KR og Vals á laugardagskvöld verða til að mynda sex áhorfendasvæði, fyrir 200 manns hvert.

„Stúkan okkar tekur bara 1.100 manns þannig að við verðum þá með fulla stúku, þar sem að krakkarnir eru ekki inni í þessum hámarkstölum. Ætli við seljum ekki 800-900 fullorðinsmiða og hleypum svo bara krökkum inn,“ segir Haraldur.

Leikur Víkings og Fjölnis hefst kl. 18 á mánudaginn. Vegna þessarar breytingar var einnig ákveðið að færa til leik HK og FH í Kórnum sem í stað þess að hefjast kl. 13.30 á sunnudag hefst kl. 18 á sunnudag. Allir leikirnir í 1. umferð verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×