Erlent

Bandaríski sjóherinn bannar Suðurríkjafánann

Kjartan Kjartansson skrifar
Fyrir sumum er fáni Suðurríkjasambandsins tákn um kynþáttahyggju. Aðrir segja að hann sé aðeins merki um þjóðarstolt suðurríkjafólks.
Fyrir sumum er fáni Suðurríkjasambandsins tákn um kynþáttahyggju. Aðrir segja að hann sé aðeins merki um þjóðarstolt suðurríkjafólks. Vísir/EPA

Fáni Suðurríkjasambandsins verður gerður útlægur á öllum opinberum stöðum bandaríska sjóhersins, skipum hans og flugvélum samkvæmt nýjum reglum sem nú er unnið að. Ákvörðun flotans kemur á sama tíma og mikil mótmæli geisa gegn kynþáttahyggju og lögregluofbeldi.

Mike Gilday, flotaforingi, segist hafa skipað starfsliði sínu að semja reglurnar sem næði til allra opinberra rýma og vinnusvæða í stöðvum flotans, skipum, flugvélum og kafbátum. Reglunum er ætlað að tryggja samstöðu herdeilda, allsherjarreglu og aga auk þess að falla að grunngildum flotans um heiður, hugrekki og trúmennsku, að því er kom fram í yfirlýsingu Gilday.

Áður hafði landgöngulið flotans annað Suðurríkjafánann, þar á meðal á munum eins og bollum eða stuðurum bifreiða, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Bandaríska hernum var att út í umræðuna um kynþáttahyggju og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum eftir að Donald Trump forseti hótaði að beita honum til að kveða niður ofbeldi í kjölfar drápsins á George Floyd, óvopnuðum blökkumanni, í haldi lögreglunnar í Minneapolis í þarsíðustu viku.

Suðurríkjasambandið var bandalag sjö ríkja í suðurhluta Bandaríkjanna þar sem þrælahald var enn við lýði sem sögðu sig úr lögum frá Bandaríkjunum árið 1860. Í kjölfarið hófst bandaríska borgarastríðið sem einnig hefur verið nefnt þrælastríðið. Sambandsríkið var leyst upp eftir hernaðarósigur þess árið 1865.

Sjá einnig: Tekist á um tákn sundraðrar fortíðar

Á síðari tímum hefur fáni Suðurríkjanna verið umdeildur í bandarísku samfélagi. Í augum svartra Bandaríkjamanna er fáninn minnisvarði um þrælahald, kynþáttahyggju og mestu sundrung bandarísku þjóðarinnar í sögunni. Þannig var Suðurríkjafáninn áberandi á samkomu hvítra þjóðernissinna, nýnasista og Kú klúx klan-liða í Charlottesville sem leystist upp í óeirðir árið 2017.

Aðrir halda því fram að fáninn sé aðeins tákn um þjóðarstolt suðurríkjafólks og sjálfsstjórn einstakra ríkja Bandaríkjanna sem þeim er tryggð í stjórnarskrá.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.