Íslenski boltinn

Pepsi Max kvenna eftir 4 daga: Meistarar meistaranna hafa ekki unnið Íslandsmeistaratitilinn í tíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, sækir Meistara meistaranna bikarinn á borðið undir hvatningu frá Guðna Bergssyni, formanni Knattspyrnusambands Íslands.
Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, sækir Meistara meistaranna bikarinn á borðið undir hvatningu frá Guðna Bergssyni, formanni Knattspyrnusambands Íslands. Vísir/Haraldur Guðjónsson

Íslandsmótið í knattspyrnu byrjar með opnunarleik Pepsi Max deildar kvenna 12. júní. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað tengdu úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Í dag eru 4 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 12. júní næstkomandi.

Selfosskonur unnu sinn fyrsta stóra titil síðasta haust þegar þær urðu bikarmeistarar á Laugardalsvellinum. Um helgina fóru þær aftur í góða ferð í höfuðborgina og höfðu með sér til baka á Suðurlandið sjálfan Meistarabikar KSÍ.

Selfoss varð meistari meistaranna eftir 2-1 endurkomusigur á Íslandsmeisturum Vals í Meistarakeppni KSÍ og það á þeirra eigin heimavelli á Hlíðarenda. Fyrirliðinn Anna María Friðgeirsdóttir skoraði sigurmarkið fyrir Selfoss með laglegu langskoti í seinni hálfleik.

Selfosskonur hafa ekkert farið leynt með markmið sín í sumar og segjast hafa sett stefnuna á Íslandsmeistaratitilinn. Þessi sigur á Val gerir ekkert annað en að styðja við þau háleitu markmið.

Það fylgir hins vegar máli að það hefur ekki boðað gott að verða meistari meistaranna í kvennaflokki undanfarin ár. Það þarf meira að segja að fara heil tíu ár aftur í tímann til að vinna lið sem fylgdi eftir sigri í Meistarakeppni KSÍ um vorið með Íslandsmeistaratitli um haustið.

Síðasta liðið til að vinna báða þessa titla á sama ári var Valsliðið sumarið 2010. Valsliðið var þá með langbesta liðið og vann deildina með átta stigum og bikarkeppnina að auki.

Undanfarin níu tímabil hefur liðið sem vann Meistarakeppnina ekki tekist að vinna Íslandsmeistaratitilinn fjórum mánuðum síðar.

Undanfarin sex ár hafa meistarar meistaranna þurft að sætta sig við silfrið á Íslandsmótinu og þar á undan enduðu meistarar meistaranna í 4. og 3. sæti. Það má sjá allan listann yfir gengi meistara meistaranna í úrvalsdeildinni sama sumar.

Sigurvegari í Meistarakeppni KSÍ í kvennaflokki síðustu tíu ár:

  • 2020 - Selfoss - ????
  • 2019 - Breiðablik - 2. sæti í deildinni sumarið 2019
  • 2018 - Þór/KA - 2. sæti
  • 2017 - Breiðablik - 2. sæti
  • 2016 - Breiðablik - 2. sæti
  • 2015 - Stjarnan - 2. sæti
  • 2014 - Breiðablik - 2. sæti
  • 2013 - Þór/KA - 4. sæti
  • 2012 - Stjarnan - 3. sæti
  • 2011 - Valur - 2. sæti
  • 2010 - Valur - Íslandsmeistari

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×