Erlent

Því velt upp hvort yfirvöld hafi hunsað ábendingar um manninn sem grunaður er í máli Madeleine

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kate and Gerry McCann foreldrar Madeleine á blaðamannafundi í Berlín árið 2007.
Kate and Gerry McCann foreldrar Madeleine á blaðamannafundi í Berlín árið 2007. Vísir/getty

Þýskir fjölmiðlar fjalla nú um hvort að rannsakendur á vegum þýsku sambandslögreglunnar hafi hunsað viðvaranir frá rannsakendum í Braunschweig árið 2013 varðandi Christian Brückner, sem þýska lögreglan grunar nú um að tengjast hvarfi hinnar bresku Madeleine McCann árið 2007.

Greint hefur verið frá því að Brückner sé nú nú orðinn miðpunktur rannsóknar bresku rannsóknarlögreglunnar Scotland Yard á hvarfi Madeleine. Þýska lögreglan, sem einnig fer með rannsókn málsins, gengur út frá því að Madeleine sé látin.

Í frétt Der Spiegel segir að  árið 2013 hafi rannsakendur í Braunschweig fengið fjölmargar ábendingar í máli McCann eftir að þýskur glæpasjónvarpsþáttur fjallaði um hvarf hennar. Þar komu foreldrar McCann meðal annars fram þar sem þau báðu almenning um að veita upplýsingar um málið.

Nafn Brückner, sem skráður var til heimilis í Braunschweig á þessum tíma, kom upp í rannsókn lögreglu þar en hann var og er góðkunningi lögreglunnar í Þýskalandi.Hann afplánar nú sjö ára fangelsisdóm í þýsku fangelsi fyrir nauðgun á eldri, bandarískri konu á Algarve í Portúgal þar sem fjölskylda Madeleine dvaldi þegar hún hvarf. Hann hafði áður hlotið dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum.

Rannsakendurnir í Braunschweig litu svo á að Brückner ætti að vera miðpunktur rannsóknar þýskra lögregluyfirvalda á hvarfi McCann. Sendu þeir skýrslur þess efnis til þýsku sambandslögreglunnar, sem hafði aldrei samband til baka, eitthvað sem rannsakendunum í Braunschweig þótti illskiljanlegt.

Í vikunni var rætt við Christian Hoppe, einn af rannsakendum sambandslögreglunnar, í þýsku sjónvarpi þar sem hann sagði að upplýsingarnar sem lögreglan hafi fengið á sínum tíma um Brückner hafi ekki verið nægjanlegar til þess að hefja rannsókn á hendur honum, og hvað þá til að handtaka hann.

Hvarf McCann vakti gríðarlega athygli á sínum tíma en hún var þriggja ára þegar síðast sást til hennar í fjölskyldufríi í Algarve í Portúgal. Hennar hefur nú verið saknað í þrettán ár.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×