Íslenski boltinn

Vonast eftir því að fá bæði Ca­stillion og Arnór Guð­john­sen

Anton Ingi Leifsson skrifar
Castillion í leik með Fylki síðasta sumar.
Castillion í leik með Fylki síðasta sumar. vísir/daníel þór

Fylkir hefur hug á að styrkja liðið fyrir komandi átök í Pepsi Max-deild karla en Geoffrey Castillion og Arnór Borg Guðjohnsen gætu leikið með liðinu í sumar.


Castillion skoraði tíu mörk fyrir Fylki í nítján leikjum síðasta sumar en eftir tímabilið samdi hann við Persib Bandung í Indónesíu þar sem hann er samningsbundinn út þetta ár.

Deildin í Indónesíu á ekki að fara af stað fyrr en í september svo Fylkismenn hafa haft samband við Castillion og lið hans ytra og eru viðræðurnar vel á veg komnar staðfestir Hrafnkell Helgi Helgason, formaður meistaraflokksráðs Fylkis, í samtali við Vísi.

„Við erum bara að bíða eftir svörum frá indónesíska knattspyrnusambandinu hvort að þeir geti ekki kallað hann til baka þegar glugginn þar opnar. Hann er öðruvísi þar en hér út af allri óvissunni og þeir vilja vera með það svart á hvítu eða þeir geti kallað hann til baka þegar deildin þar hefst,“ sagði Hrafnkell.

Hrafnkell staðfesti einnig í samtali við Vísi að samningaviðræður stæðu yfir við Arnór Borg Guðjohnsen. Hinn nítján ára gamli Arnór er samningsbundinn Swansea út júní en viðræður standa yfir við Swansea að ganga frá þeim málum.

Hann segir að Arnór hafi komið heim og æft með Árbæjarliðinu og litist vel á umhverfið þar. Hrafnkell reiknar með að penninn fari á loft næstu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×