Íslenski boltinn

8 dagar í Pepsi Max: Þarf að fara aftur til 1989 til að finna færri grasleiki í fyrstu umferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumarkvörðurinn Haraldur Björnsson hefur hér fengið slæma byltu í leik á móti Blikum á gervigrasinu í Garðbænum.
Stjörnumarkvörðurinn Haraldur Björnsson hefur hér fengið slæma byltu í leik á móti Blikum á gervigrasinu í Garðbænum. Vísir/Vilhelm

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 8 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Íslandsmótið í knattspyrnu er að hefjast í júní í fyrsta sinn í meira en sex áratugi en þrátt fyrir það verður aðeins einn af sex leikjum fyrstu umferðarinnar á náttúrulegu grasi. Það er þó ekki slæmum vallarskilyrðum um að kenna heldur hafa liðin verið að færa sig yfir á gervigras.

Eini grasleikurinn í fyrstu umferð Pepsi verður leikur ÍA og KA á Norðurálsvelli á Akranesi. Hinir fimm leikirnir fara allir fram á gervigrasi.

Það verður spilað í Kórnum, á gervigrasi Valsmanna á Origo vellinum, á gervigrasi Víkinga í Fossvogi, á gervigrasinu á Kópavogsvelli og lokaleikur umferðarinnar fer síðan fram á gervigrasi Stjörnumanna á Samsung vellinum í Garðabæ.

Sjö af tólf liðum spila á gervigrasi í sumar eða Valur, Breiðablik, Stjarnan, Víkingur, Fylkir, HK og Grótta. KR, FH, ÍA og KA spila á grasi.

Síðast fór aðeins einn grasleikur fram í fyrstu umferð Íslandsmótsins árið 1989 eða fyrir 31 ári síðan. Frá og með 1990 hafa alltaf verið þrír eða fleiri grasleikir í fyrstu umferðinni.

Það var kalt vorið 1989 og eini leikurinn á grasi var leikur FH og KA. Hann fór þó ekki fram á aðalvellinum í Kaplakrika heldur á æfingasvæðinu. Tveir af leikjunum voru spilaðir á þá frekar nýlegu gervigrasi í Laugardalnum og tveir leikir voru spilaðir á möl, einn á Akureyri en hinn í Keflavík.

Þetta var þó enn verra sumarið 1988 en þá var enginn grasleikur í fyrstu umferðinni. Tveir leikir fóru þá fram á gervigrasi í Laugardalnum og tveir á möl. Fimmta leiknum var síðan frestað inn í júnímánuð vegna slæmra aðstæðna fyrir norðan en það var innbyrðis leikur Akureyrarliðanna, Þór og KA.

Það voru fjórir grasleikir í fyrstu umferðinni í fyrra en tveir voru þá spilaði á gervigrasi. Mest áður höfðu verið þrír gervigrasleikir í fyrstu umferðinni sumurin 2014, 2016 og 2018.

Grasleikir í fyrstu umferðinni í efstu deild karla:

 • 2020 - 1 (5 á gervigrasi)
 • 2019 - 4 (2 á gervigrasi)
 • 2018 - 3 (3 á gervigrasi)
 • 2017 - 5 (1 á gervigrasi)
 • 2016 - 3 (3 á gervigrasi)
 • 2015 - 6
 • 2014 - 3 (3 á gervigrasi)
 • 2013 - 6
 • 2012 - 6
 • 2011 - 5 (1 á gervigrasi)
 • 2010 - 4 (2 á gervigrasi)
 • 2009 - 5 (1 á gervigrasi)
 • 2008 - 6
 • 2007 - 5
 • 2006 - 5
 • 2005 - 5
 • 2004 - 5
 • 2003 - 5
 • 2002 - 5
 • 2001 - 5
 • 2000 - 5
 • 1999 - 5
 • 1998 - 5
 • 1997 - 5
 • 1996 - 5
 • 1995 - 5
 • 1994 - 5
 • 1993 - 5
 • 1992 - 5
 • 1991 - 3 (2 á möl)
 • 1990 - 4 (1 á möl)
 • 1989 - 1 (2 á gervigrasi, 2 á möl)
 • 1988 - 0 (2 á gervigrasi, 2 á möl, 1 frestað)


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.