Íslenski boltinn

8 dagar í Pepsi Max: Þarf að fara aftur til 1989 til að finna færri grasleiki í fyrstu umferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumarkvörðurinn Haraldur Björnsson hefur hér fengið slæma byltu í leik á móti Blikum á gervigrasinu í Garðbænum.
Stjörnumarkvörðurinn Haraldur Björnsson hefur hér fengið slæma byltu í leik á móti Blikum á gervigrasinu í Garðbænum. Vísir/Vilhelm

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 8 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Íslandsmótið í knattspyrnu er að hefjast í júní í fyrsta sinn í meira en sex áratugi en þrátt fyrir það verður aðeins einn af sex leikjum fyrstu umferðarinnar á náttúrulegu grasi. Það er þó ekki slæmum vallarskilyrðum um að kenna heldur hafa liðin verið að færa sig yfir á gervigras.

Eini grasleikurinn í fyrstu umferð Pepsi verður leikur ÍA og KA á Norðurálsvelli á Akranesi. Hinir fimm leikirnir fara allir fram á gervigrasi.

Það verður spilað í Kórnum, á gervigrasi Valsmanna á Origo vellinum, á gervigrasi Víkinga í Fossvogi, á gervigrasinu á Kópavogsvelli og lokaleikur umferðarinnar fer síðan fram á gervigrasi Stjörnumanna á Samsung vellinum í Garðabæ.

Sjö af tólf liðum spila á gervigrasi í sumar eða Valur, Breiðablik, Stjarnan, Víkingur, Fylkir, HK og Grótta. KR, FH, ÍA og KA spila á grasi.

Síðast fór aðeins einn grasleikur fram í fyrstu umferð Íslandsmótsins árið 1989 eða fyrir 31 ári síðan. Frá og með 1990 hafa alltaf verið þrír eða fleiri grasleikir í fyrstu umferðinni.

Það var kalt vorið 1989 og eini leikurinn á grasi var leikur FH og KA. Hann fór þó ekki fram á aðalvellinum í Kaplakrika heldur á æfingasvæðinu. Tveir af leikjunum voru spilaðir á þá frekar nýlegu gervigrasi í Laugardalnum og tveir leikir voru spilaðir á möl, einn á Akureyri en hinn í Keflavík.

Þetta var þó enn verra sumarið 1988 en þá var enginn grasleikur í fyrstu umferðinni. Tveir leikir fóru þá fram á gervigrasi í Laugardalnum og tveir á möl. Fimmta leiknum var síðan frestað inn í júnímánuð vegna slæmra aðstæðna fyrir norðan en það var innbyrðis leikur Akureyrarliðanna, Þór og KA.

Það voru fjórir grasleikir í fyrstu umferðinni í fyrra en tveir voru þá spilaði á gervigrasi. Mest áður höfðu verið þrír gervigrasleikir í fyrstu umferðinni sumurin 2014, 2016 og 2018.

Grasleikir í fyrstu umferðinni í efstu deild karla:

  • 2020 - 1 (5 á gervigrasi)
  • 2019 - 4 (2 á gervigrasi)
  • 2018 - 3 (3 á gervigrasi)
  • 2017 - 5 (1 á gervigrasi)
  • 2016 - 3 (3 á gervigrasi)
  • 2015 - 6
  • 2014 - 3 (3 á gervigrasi)
  • 2013 - 6
  • 2012 - 6
  • 2011 - 5 (1 á gervigrasi)
  • 2010 - 4 (2 á gervigrasi)
  • 2009 - 5 (1 á gervigrasi)
  • 2008 - 6
  • 2007 - 5
  • 2006 - 5
  • 2005 - 5
  • 2004 - 5
  • 2003 - 5
  • 2002 - 5
  • 2001 - 5
  • 2000 - 5
  • 1999 - 5
  • 1998 - 5
  • 1997 - 5
  • 1996 - 5
  • 1995 - 5
  • 1994 - 5
  • 1993 - 5
  • 1992 - 5
  • 1991 - 3 (2 á möl)
  • 1990 - 4 (1 á möl)
  • 1989 - 1 (2 á gervigrasi, 2 á möl)
  • 1988 - 0 (2 á gervigrasi, 2 á möl, 1 frestað)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×