Erlent

Segir að erfðaskrá eiginmanns Carole Baskin sé fölsuð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Carole Baskin.
Carole Baskin. Netflix

Chad Chronister, lögreglustjóri í Flórída í Bandaríkjunum er sagður hafa staðfest orðróma þess efnis að erfðaskrá Don Lewis, fyrrum eiginmanns dýraverndunaraktívistans Carole Baskin, sé fölsuð. Lewis hvarf sporlaust árið 1997 og hefur aldrei fundist. Þetta kemur fram á vef Variety.

Don Lewis hvarf sporlaust árið 1997. Ekkert er vitað um ferðir hans síðan þá, en hann var úrskurðaður látinn árið 2002, án þess að hafa fundist. Allar eigur hans fóru þá til Baskin, en þær voru metnar á um 10 milljónir dollara. Dætur Lewis og aðrir fjölskyldumeðlimir fengu ekkert í sinn hlut, samkvæmt erfðaskránni. Joseph Fritz, lögmaður og vinur Lewis, sagði í síðasta mánuði að hann teldi undirskriftina á erfðaskránni vera falsaða.

Chronister lögreglustjóri segir sérfræðinga hafa verið fengna til að kanna hvort erfðaskráin kynni að vera fölsuð. Þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að hún væri það.

„Það voru kallaðir inn sérfræðingar til að skera úr um hvort hún væri fölsuð. Ég var búinn að segja þeim það fyrir tveimur mánuðum. Tveir sérfræðingar úrskurðuðu hana [erfðaskrána] hundrað prósent falsaða.“

Reynist það endanleg niðurstaða að erfðaskráin sé fölsuð er líklega lítið sem aðrir mögulegir erfingjar Lewis gætu gert til að leita réttar síns í málinu. Búið er að framfylgja efni erfðaskrárinnar og fyrningarfrestur er liðinn.

„Það er ástæðan. Það eru engin úrræði. Dómari taldi erfðaskrána lögmæta [á sínum tíma].“

Fjallað er um Carole Baskin í heimildaþáttunum Tiger King. Þættirnir hverfast að mestu um líf og störf hins litríka Joe Exotic, sem einnig er þekktur sem Tígrisdýrakonungurinn (e. Tiger King). Hann afplánar nú fangelsisdóm fyrir að hafa reynt að fá leigumorðingja til þess að ráða Baskin af dögum. Hann hefur lengi haldið því fram að Baskin hafi komið fyrrum eiginmanni sínum fyrir kattarnef.


Tengdar fréttir

Cage leikur tígrisdýrakonunginn

Heimildaþættirnir Tiger King, sem fjalla að mestu leyti um hinn skrautlega fyrrum dýragarðseiganda Joe Passage-Maldonado betur þekktan sem Joe Exotic, fóru um heimsbyggðina eins og eldur um sinu fyrir nokkru.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×