Innlent

Endurmeta stöðuna á tveggja vikna fresti

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að staðan verði endurmetin á tveggja vikna fresti. 
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að staðan verði endurmetin á tveggja vikna fresti.  vísir/vilhelm

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnarlæknis sem fjallað var um á fundi ríkisstjórnar í dag um breytingu á reglum við komur ferðamanna til Íslands. Forsætisráðherra segir að staðan verði endurmetin á tveggja vikna fresti.

Minnisblað sóttvarnarlæknis um skimanir við landamæri var til umræðu á ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Að öðrum kosti þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví.

Sóttvarnarlæknir mun bera meginábyrgð á framkvæmd sýnatöku en að sögn forsætisráðherra er samtal í gangi um aðkomu íslenskrar erfðagreiningar.

Ráðherrann hefur skipað samhæfingarteymi sem mun aðstoða sóttvarnarlækni við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Margt er þó enn óljóst.

„Það er meðal annars gjaldtaka fyrir sýni og hvort hún á að snúast um gjald fyrir einstakt sýni eða vera hluti af fastakostnaði. Það eru líka ákveðnar laga- og reglugerðarbreytingar sem þarf að ráðast í til að mynda varðandi forskráningu upplýsinga af hálfu flugrekstraraðila. Hvernig á að fara með þá sem hingað koma og neita annað hvort að taka sýni eða fara í sóttkví og svo framvegis,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Forsætisráðherra segir að samtal sé í gangi um aðkomu íslenskrar erfðagreiningar.Vísir/Vilhelm

Bráðabirgðamat bendir til þess að kostnaður við sýnatöku á Keflavíkurflugvelli fyrstu tvær vikurnar frá opnun landamæra yrði um 160 milljónir króna ef 500 manns koma til landsins á dag.

Nú er þetta breytilegt ástand. Hversu reglulega og hvenær ætlið þið að endurskoða stöðuna?

„Ég hef lagt á það áherslu að við séum að endurskoða þetta mjög reglulega. Það er að segja að á tveggja vikna fresti munum við taka stöðuna. Hvaða árangri er þetta að skila og við verðum um leið að fylgjast með þróun faraldursins í heiminum,“ sagði Katrín.


Tengdar fréttir

Sótt­varna­læknir mun bera megin­á­byrgð á skimunum

Nú er ljóst að komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Annars þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.