Íslenski boltinn

Setti Íslandsmet með því að halda bolta á lofti í 104 mínútur og sannaði það með myndbandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Knútur Haukstein Ólafsson í myndbandinu þar sem sjá má hann setja Íslandsmetið.
Knútur Haukstein Ólafsson í myndbandinu þar sem sjá má hann setja Íslandsmetið. Skjámynd/Youtube

Knútur Haukstein Ólafsson segist eiga Íslandsmetið í að halda knetti á lofti og það eru allar líkur á því að hann hafi rétt fyrir sér.

„Ég hélt boltanum á lofti í 1 klukkutíma og 44 mínútur. Og snertingarnar voru í það minnsta 11.582,“ sagði Knútur Haukstein Ólafsson við blaðamann Skagafrétta.

Heimsmetið í því að halda bolta á lofti á Milene Domingues frá Brasilíu. Hún hélt boltanum á lofti í 9 klukkutíma og 6 mínútur. Á þeim tíma náði hún 55.198 snertingum.

Það hefur ekki verið til skráð Íslandsmet í því að halda bolta á lofti fyrr en nú.

Knútur Haukstein Ólafsson segir í viðtalinu að hann sé einstaklingsmiðaður og liðsíþróttir hafi ekki átt við hann.

„Það er stór munur á þeim aðstæðum og að reyna að gera eitthvað slíkt í venjulegum fótboltaleik. Flestar af þessum brellum mínum myndu fáir komast upp með að gera í alvörufótboltaleik,“ sagði Knútur Haukstein. Hann hefur hæft sig í þessum hluta fótboltans frá því að hann var unglingur.

„Sumir eru góðir í því að halda bolta á lofti en eru ekkert sérstakir í öðru, og sumir eru ekkert sérstakir í því að halda bolta á lofti en eru samt sem áður frábærir atvinnumenn,“ sagði Knútur Haukstein en það má finna allt viðtalið við hann hér.

Knútur Haukstein Ólafsson tók það upp þegar hann hélt boltanum á lofti í einn klukkutíma og 44 mínútur og má sjá það hér fyrir neðan. Myndbandið er samt bara tæpar nítján mínútur á lengd því hann sýnir það mjög hratt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×