Enski boltinn

Segir að enska knattspyrnusambandið eigi að skammast sín

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Manchester City og Chelsea á tímabilinu.
Úr leik Manchester City og Chelsea á tímabilinu. Getty/Vísir

Suzanne Wrack, pistlahöfundur enska miðilsins The Guardian, lét enska knattspyrnusambandið fá það óþvegið í pistli sínum sem birtist fyrir helgi. 

Þar gagnrýnir hún viðbrögð knattspyrnusambandsins við kórónufaraldrinum og hvernig sambandið aflýsti einfaldlega efstu tveimur deildum kvenna á meðan allt er gert til að klára leiktímabilin í efstu tveimur deildum karla.

Á mánudaginn var ákvað enska knattspyrnusambandið að aflýsa keppni í Ofurdeild kvenna eins og hún er kölluð sem og B-deildinni þar í landi. Ef til vill væri það eðlilegt ef ákveðið hefði verið að gera það einnig karlamegin.

Í Bandaríkjunum verður kvennafótbolti fyrsta íþróttin til að fara aftur af stað eftir kórónufaraldurinn. Þá fór þýska úrvalsdeildin aftur af stað um helgina þar sem bæði Sara Björk Gunnarsdóttir og Sandra María Jessen voru í eldlínunni með sínum liðum.

Munu þýsku liðin aðeins hafa æft með hefðbundnu sniði í eina viku áður en keppni hefst. Nú þegar hefur það sýnt sig að meiðslatíðni leikmanna karlamegin er mun meiri nú eftir að leikmenn höfðu æft einir á meðan kórónufaraldrinum stóð.

Suzanne Wrack bendir á eignarhald þýsku félaganna og hvernig gildi íþrótta hafi þar með betur gegn efnahagslegum gildum, sem er að því virðist ein stærsta ástæðan á bak við ákvörðun enska knattspyrnusambandsins að aflýsa einfaldlega kvennaknattspyrnu.

Fjögur af stærstu liðum þýsku úrvalsdeildarinnar, karlamegin, hafa alls gefið í kringum 20 milljónir evra til að aðstoða bæði lið í neðri deildum sem og kvennalið þar sem fjármagn er af skornum skorti.

„Við getum aðeins komist yfir þessa krísu ef við stöndum saman, því það er aðeins einn fótbolti,“ sagði Fritz Keller, foresti þýska knattspyrnusambandsins.

Vert er að minnast á að Pepsi deild kvenna fer af stað þann 12. júní þegar erkifjendurnir Valur og KR mætast á Hlíðarenda. Leikurinn verður í beinni útsendingu Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

„Hlægilegt“ að tala um of há laun í kvennaboltanum

Helena Ólafsdóttir, knattspyrnuþjálfari og stjórnandi Pepsi Max-marka kvenna, segir laun kvenna í fótbolta ekki komast nálægt því sem að karlarnir fái og að hlægilegt sé að heyra talað um að knattspyrnukona á Íslandi fái „of há laun“.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.