Fótbolti

Lítið ryð í Söru Björk og stöllum í fyrsta leiknum í þrjá mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk fagnar með Pernille Harder eftir að hún kom Wolfsburg í 1-0 með marki úr vítaspyrnu.
Sara Björk fagnar með Pernille Harder eftir að hún kom Wolfsburg í 1-0 með marki úr vítaspyrnu. getty/Swen Pförtner

Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn þegar Wolfsburg vann öruggan sigur á Köln, 4-0, í fyrsta leik sínum í þýsku úrvalsdeildinni í tæpa þrjá mánuði.

Þrátt fyrir að hafa ekki spilað síðan 1. mars vegna kórónuveirufaraldursins virtist lítið ryð í Söru og stöllum hennar.

Pernille Harder, fyrirliði danska landsliðsins, kom Wolfsburg á bragðið með marki úr vítaspyrnu á 33. mínútu. Á lokamínútu fyrri hálfleiks jók Svenja Huth muninn í 2-0.

Í seinni hálfleik bættu Alexandra Popp og Harder við mörkum og öruggur 4-0 sigur Wolfsburg staðreynd. Harder er langmarkahæst í þýsku deildinni með 24 mörk.

Wolfsburg er með ellefu stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar. Liðið hefur unnið sextán af fyrstu sautján leikjum sínum og gert eitt jafntefli. Fátt virðist því geta komið í veg fyrir Wolfsburg verði þýskur meistari fjórða árið í röð.

Samningur Söru við Wolfsburg rennur út í sumar og hún mun þá róa á ný mið. Hún hefur m.a. verið orðuð við Lyon og Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×