Fótbolti

Lítið ryð í Söru Björk og stöllum í fyrsta leiknum í þrjá mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk fagnar með Pernille Harder eftir að hún kom Wolfsburg í 1-0 með marki úr vítaspyrnu.
Sara Björk fagnar með Pernille Harder eftir að hún kom Wolfsburg í 1-0 með marki úr vítaspyrnu. getty/Swen Pförtner

Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn þegar Wolfsburg vann öruggan sigur á Köln, 4-0, í fyrsta leik sínum í þýsku úrvalsdeildinni í tæpa þrjá mánuði.

Þrátt fyrir að hafa ekki spilað síðan 1. mars vegna kórónuveirufaraldursins virtist lítið ryð í Söru og stöllum hennar.

Pernille Harder, fyrirliði danska landsliðsins, kom Wolfsburg á bragðið með marki úr vítaspyrnu á 33. mínútu. Á lokamínútu fyrri hálfleiks jók Svenja Huth muninn í 2-0.

Í seinni hálfleik bættu Alexandra Popp og Harder við mörkum og öruggur 4-0 sigur Wolfsburg staðreynd. Harder er langmarkahæst í þýsku deildinni með 24 mörk.

Wolfsburg er með ellefu stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar. Liðið hefur unnið sextán af fyrstu sautján leikjum sínum og gert eitt jafntefli. Fátt virðist því geta komið í veg fyrir Wolfsburg verði þýskur meistari fjórða árið í röð.

Samningur Söru við Wolfsburg rennur út í sumar og hún mun þá róa á ný mið. Hún hefur m.a. verið orðuð við Lyon og Barcelona.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.