Íslenski boltinn

Heita Lengjudeildirnar sumarið 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjamenn spila í Lengjudeildinni í sumar og eru líklegir til að endurheimta sætið sitt meðal þeirra bestu.
Eyjamenn spila í Lengjudeildinni í sumar og eru líklegir til að endurheimta sætið sitt meðal þeirra bestu. Vísir/Daníel Þór

Íslenskar getraunir og Íslenskur Toppfótbolti hafa samið um markaðsréttindi Lengjunnar vegna 1. deildar karla og kvenna í knattspyrnu fyrir sumarið 2020.

Íslensku b-deildirnar heita Lengjudeildirnar sumarið 2020. Deildirnar hafa verið nefndar eftir Inkasso sem hefur verið styrktaraðili 1. deildar karla og kvenna í fótbolta síðustu ár en því samstarfi lauk eftir síðustu leiktíð.

Lengjudeild karla á að hefjast föstudaginn 19. júní en daginn áður hefst keppni í Lengjudeild kvenna.

„Það er spennandi knattspyrnusumar fram undan og Íslenskar getraunir vilja halda áfram að styðja þétt við bakið á íslenskri knattspyrnu eins og fyrirtækið hefur gert í áraraðir samhliða öðru íþróttalífi í landinu. Við erum gríðarlega ánægð með að fá tækifæri til að vinna enn frekar með knattspyrnufélögum í landinu og munum leggja kapp á að kynna deildina vel fyrir landanum í góðu samstarfi við félögin í deildunum. Deildin í ár inniheldur feykilega öflug félög með góða dreifingu um land allt, það er okkar von að landsmenn sæki vel leiki deildarinnar á flakki sínu um landið í sumar,“ segir Einar Njálsson markaðsstjóri Íslenskra Getrauna, í fréttatilkynningu.

„Það ríkir mikil ánægja hjá okkur í ÍTF með nýjan samstarfsaðila fyrir 1.deild karla og kvenna. Það er verið að stíga stór skref í sögu ÍTF með þessum samningi en þetta er í fyrsta skiptið sem samtökin selja nafnarétt að íslenskri knattspyrnu. Við erum gríðarlega spennt fyrir samstarfinu enda finnum við fyrir miklum metnaði hjá Íslenskum getraunum. Knattspyrnusumarið er loksins að byrja og okkur hlakkar öllum gríðarlega til. Það ber að þakka Inkasso kærlega fyrir frábært samstarf síðastliðin ár en þeir lögðu ákveðinn grunn sem við vorum staðráðin í að viðhalda og byggja ofan á. Það er því sannarlega fagnaðarefni að fá inn jafn öflugan aðila og Íslenskar getraunir sem hafa stutt frábærlega við íslenskt íþróttalíf í áratugi,“ segir Haraldur Haraldsson formaður ÍTF.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.