Enski boltinn

Rifjaði upp tapið gegn Íslandi: „Bölvað og stunið en svo varð allt hljótt“

Sindri Sverrisson skrifar
Jack Wilshere reynir að verjast Aroni Einari Gunnarssyni í leiknum fræga í Nice.
Jack Wilshere reynir að verjast Aroni Einari Gunnarssyni í leiknum fræga í Nice. VÍSIR/GETTY

Tapleikurinn gegn Íslandi á EM 2016 er sá síðasti af 34 landsleikjum Jack Wilshere fyrir England. Þessi 28 ára miðjumaður West Ham var fenginn til að rifja leikinn upp í hlaðvarpsþætti Robbie Savage hjá BBC.

„Ég kom inn á í hálfleik og við vorum mikið meira með boltann en ekki nógu góðir á fremsta þriðjungi vallarins. Við fengum ekki alvöru færi,“ sagði Wilshere en eins og flestir ættu að muna vann Ísland 2-1 sigur, eftir að hafa lent undir snemma leiks.

„Þetta var erfitt. Eftir því sem leið á leikinn þá hugsaði maður með sér að þetta yrði einn af þessum leikjum þar sem að maður getur bara ekki skorað,“ sagði Wilshere. „Það var auðvitað fullt af enskum stuðningsmönnum þarna og þeir létu okkur heyra það, reyndu að kom okkur í gang en það dugði ekki,“ sagði Wilshere, og viðurkenndi að stemningin hefði verið þrúgandi í búningsklefanum eftir tapið.

„Það fóru allir inn í klefa og það var bölvað og stunið en svo varð allt hljótt. Þá tilkynntu Roy [Hodgson, þáverandi landsliðsþjálfari] og hans starfslið afsögn sína, og maður hugsaði „ó, Guð“. Þetta var svo sannarlega slæmt,“ sagði Wilshere en hægt er að hlusta á viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×