Fótbolti

Þjóðverjar fresta einnig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þýskalandsmeistarar Bayern München áttu að mæta Union Berlin á morgun.
Þýskalandsmeistarar Bayern München áttu að mæta Union Berlin á morgun.

Keppni í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta hefur verið frestað til 2. apríl vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Þá hefur keppni í fimm sterkustu deildum Evrópu verið frestað; á Englandi, Ítalíu, Frakklandi, Spáni og Þýskalandi.

Leikjunum í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og Evrópudeildarinnar sem áttu að fara fram í næstu viku hefur einnig verið frestað.

Þar á meðal er leikur Bayern München og Chelsea sem átti að fara fram á þriðjudaginn. Bayern vann fyrri leikinn á Stamford Bridge, 0-3. Bayern átti að mæta Union Berlin í þýsku úrvalsdeildinni á morgun.

Tveir Íslendingar leika í þýsku úrvalsdeildinni; Alfreð Finnbogason með Augsburg og Samúel Kári Friðjónsson með Paderborn sem átti að sækja Düsseldorf heim í fyrsta leik 26. umferðar í kvöld. Augsburg átti að taka á móti Wolfsburg á morgun 

Bayern er með fjögurra stiga forskot á Borussia Dortmund á toppi þýsku deildarinnar.

Keppni í þýsku B-deildinni hefur einnig verið frestað. Þar leika tveir Íslendingar; Guðlaugur Victor Pálsson með Darmstadt 98 og Rúrik Gíslason með Sandhausen. 


Tengdar fréttir

Spænska úrvalsdeildin frestar næstu tveimur umferðum

Spænska úrvalsdeildin í knattspyrnu hefur ákveðið að fresta næstu tveimur umferðum ótímabundið eftir að allir leikmenn Real Madrid voru sendir í sóttkví þar sem leikmaður körfuboltaliðs félagsins hefur greinst með kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×