Fótbolti

Leikjum í Meistara- og Evrópudeildinni frestað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keppni í Meistaradeild Evrópu hefur verið frestað um óákveðinn tíma.
Keppni í Meistaradeild Evrópu hefur verið frestað um óákveðinn tíma. vísir/getty

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur ákveðið að fresta öllum leikjum sem áttu að fara fram í 16-liða úrslitum Meistara- og Evrópudeildarinnar í næstu viku vegna kórónuveirunnar.

Búið var að fresta leikjunum sem áttu að fara fram í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. Það voru leikir Manchester City og Real Madrid og Juventus og Lyon. Leikmenn Real Madrid og Juventus eru í sóttkví.

Nú er ljóst að leikir Bayern München og Chelsea og Barcelona og Napoli í Meistaradeildinni á miðvikudaginn fara ekki fram. Sömu sögu er að segja af leikjunum í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.

Þá hefur drættinum í 8-liða úrslit Meistara- og Evrópudeildarinnar einnig verið frestað.

Nær öllum deildarkeppnum í Evrópu hefur verið frestað, nema á Englandi. Enska úrvalsdeildin verður með neyðarfund í dag þar sem næstu skref verða ákveðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×