Erlent

Chelsea Manning sleppt aftur úr haldi

Eiður Þór Árnason skrifar
Manning var upphaflega dæmd í 35 ára fangelsi árið 2010.
Manning var upphaflega dæmd í 35 ára fangelsi árið 2010. Getty/Win McNamee

Bandarískur dómari úrskurðaði í dag að Chelsea Manning, sem er þekktust fyrir að hafa lekið gríðarlegu magni gagna til Wikileaks, yrði leyst tafarlaust úr haldi.

Manning var áður dæmd í fangelsi fyrir að neita að bera vitni í rannsókn sem snýr að Wikileaks og hafði verið í gæsluvarðhaldi í Virginíu-ríki frá því í maí síðastliðnum.

Þá komst bandarískur alríkisdómari að þeirri niðurstöðu að með því hafi sýnt hún dómstólnum óvirðingu og bæri að gegna fangelsisvist.

Sjá einnig: Manning send í fangelsi fyrir að neita að bera vitni gegn Wikileaks

Manning var ætlað að mæta aftur fyrir dóm næsta föstudag en dómari komst að þeirri niðurstöðu í dag að ekki væri lengur þörf fyrir vitnisburð hennar. Ákvörðun dómarans kemur stuttu eftir að fregnir bárust af því að Manning hafi reynt að fremja sjálfsvíg.

Þegar hún var kölluð fyrir dómara síðasta föstudag ítrekaði Manning að hún ætlaði ekki að bera vitni gegn Wikileaks og að hún myndi sætta sig við hvaða refsingu sem dómarinn teldi við hæfi.

Hún sagðist þar að auki hafa gefið allar þær upplýsingar sem hún bjó yfir þegar réttað var yfir henni á sínum tíma.

Manning var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2010 og sat inni í sjö ár fyrir að hafa lekið skjölunum til Wikileaks þegar hún starfaði sem leyniþjónustugreinandi hjá Bandaríkjaher.

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, mildaði dóm hennar rétt áður en hann lét af embætti í janúar árið 2017.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×