Erlent

Telja lík­legast að Anne-Elisa­beth hafi verið kyrkt og líkinu ekið brott

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen.
Tom Hagen og Anne-Elisabeth Hagen. Vísir/AP

Lögregla í Noregi telur að Anne-Elisabeth Hagen, sem saknað hefur verið síðan í lok október árið 2018, hafi verið myrt inni á heimili hennar og eiginmannsins, auðkýfingsins Tom Hagen. Nú er rannsakað hvort Anne-Elisabeth hafi verið kyrkt í húsinu og lík hennar svo flutt burtu í bíl. Þetta herma heimildir norska dagblaðsins VG.

Tom Hagen var handtekinn grunaður um morðið á Anne-Elisabeth í lok apríl en var sleppt úr gæsluvarðhaldi í byrjun þessa mánaðar. Málið var fyrst rannsakað sem mannrán en lögregla gengur nú út frá því að Tom Hagen hafi sviðsett mannránið, ef til vill í félagi við aðra, til að hylma yfir morðið á Anne-Elisabeth.

Í frétt VG sem birt var í gær segir að aðalkenning lögreglu nú snúi að því að Anne-Elisabeth hafi verið kyrkt inni á heimili þeirra hjóna í Lørenskógi. Ýmislegt á vettvangi bendi til þess, m.a. föt Anne-Elisabeth sem þar fundust, merki um að eitthvað hafi verið dregið eftir gólfinu sem og lífsýni úr Anne-Elisabeth inni á heimilinu.

Lögreglumenn rannsaka heimili Hagen-hjónanna í Lørenskógi skömmu eftir að Tom Hagen var handtekinn á leið til vinnu 28. apríl.Vísir/EPA

Lögregla rannsakar nú heimili Hagen-hjónanna sem morðvettvang og hefur það enn til umráða. Tom Hagen hefur þannig ekki enn fengið að snúa heim til sín eftir að honum var sleppt úr haldi.

Líkamsleifar Anne-Elisabeth hafa ekki fundist og því getur lögregla ekki slegið neinu föstu um dánarorsök. Þá er lögreglu eðli málsins samkvæmt ekki heldur unnt að fullyrða að hún hafi verið myrt, þó að flest þyki benda til þess.

Svein Holden verjandi Tom Hagen segir í samtali við VG, inntur eftir viðbrögðum við kenningu lögreglu, að ekkert bendi í raun til þess að Anne-Elisabeth hafi verið myrt í húsinu. Það sé allt eins líklegt að henni hafi verið ráðinn bani utan heimilisins. Þá hafi lögregla heldur engar forsendur til að ætla að Anne-Elisabeth hafi verið kyrkt, að hans mati.


Tengdar fréttir

Sagði lögreglu frá „stráknum“ strax eftir hvarfið

Tom Hagen, sem grunaður er um morð eða aðild að morði á eiginkonu sinni, Anne-Elisabeth Hagen, minntist á mann, sérfræðing á sviði rafmynta sem nú er grunaður um aðild að málinu, í yfirheyrslum skömmu eftir að Anne-Elisabeth hvarf í október 2018.

Hagen sleppt úr gæsluvarðhaldi

Tom Hagen hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir að Hæstiréttur Noregs úrskurðaði gegn lögreglunni um framlengingu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.