Erlent

Fyrr­verandi lög­manni Trump sleppt úr fangelsi vegna Co­vid-19

Sylvía Hall skrifar
Michael Cohen fyrir utan heimili sitt í dag.
Michael Cohen fyrir utan heimili sitt í dag. Vísir/Getty

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi í desember 2018, hefur verið sleppt úr fangelsi og færður í stofufangelsi vegna kórónuveirufaraldursins. Er þetta gert til þess að sporna við frekari útbreiðslu veirunnar innan veggja fangelsisins og tryggja öryggi fanga.

Cohen játaði að hafa gerst sekur um brot á kosningalögum, skattsvik og að hafa logið að rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Sagði hann Trump hafa fengið sig til að „feta myrka braut í stað bjartrar“ og það hafi verið veikleiki að sýna Trump gagnrýnislausa hollustu.

Cohen afplánaði í fangelsi í New York sem hefur orðið illa úti í faraldrinum. Þónokkur staðfest tilfelli höfðu komið upp í fangelsinu en á landsvísu hafa 2.265 fangar greinst með veiruna og 188 starfsmenn. Þá hafa 58 fangar látist.

Upphaflega átti að Cohen að losna úr fangelsinu í apríl en því var frestað þar til nú. Í yfirlýsingu frá Cohen á Twitter segist hann vera glaður að vera kominn aftur heim til fjölskyldu sinnar.

Fyrr í mánuðinum var Paul Manafort, fyrrverandi framkvæmdastjóri forsetaframboðs Trump, færður í stofufangelsi vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hafði afplánað rúmlega ár af sjö ára fangelsisdómi sínum fyrir meðal annars banka- og skattsvik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.