Erlent

Játa sök í há­skóla­svika­myllu­málinu

Sylvía Hall skrifar
Lori Laughlin og Mossimo Giuannulli.
Lori Laughlin og Mossimo Giuannulli. Vísir/Getty

Leikkonan Lori Laughlin og Mossimo Giuannulli, eiginmaður hennar, munu játa sök í hinu svokallaða háskólasvikamyllumáli. Hjónin voru á meðal fimmtíu annarra sem voru ákærð fyrir að taka þátt í svikum til þess að koma börnum sínum í nokkra virtustu háskóla Bandaríkjanna.

Á síðasta ári var leikkonan Felicity Huffman dæmd í fjórtán daga fangelsi vegna málsins, en leikkonan er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í þáttunum Aðþrengdum eiginkonum. Var hún ákærð fyrir að hafa greitt fimmtán þúsund Bandaríkjadali fyrir að láta leiðrétta á laun svör dóttur sinnar á inntökuprófi til að auka líkur á að hún kæmist inn í betri skóla.

Laughlin og eiginmaður hennar höfðu upphaflega ætlað að neita sök í málinu en á vef BBC segir að þau hafi nú samþykkt samkomulag sem kveður á um fangelsisvist, sekt og samfélagsþjónustu. Laughlin mun samkvæmt samkomulaginu afplána tveggja mánaða fangelsisdóm og greiða 150 þúsund Bandaríkjadali í sekt og maður hennar fimm mánaða fangelsisdóm og greiða sekt upp á 250 þúsund Bandaríkjadali.

Hjónin eru sökuð um að hafa borgað 500 þúsund dali til þess að koma dætrum sínum inn í Háskólann í Suður-Kaliforníu. Upphæðin samsvarar tæplega 72 milljónum íslenskra króna á núverandi gegni.

Með játningu hjónanna hafa nú 24 játað sök í málinu. Að sögn saksóknara í Massachusetts er unnið að því að ljúka málinu og vona yfirvöld að sem flestir verði dregnir til ábyrgðar fyrir þátttöku sína í málinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.