Erlent

Sanders vonast aftur eftir óvæntum sigri í Michigan

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden og Bernie Sanders keppast um tilefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember.
Joe Biden og Bernie Sanders keppast um tilefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Vísir/AP

Þeir Joe Biden og Bernie Sanders munu í kvöld keppa um atkvæði Demókrata í sex ríkjum Bandaríkjanna. Kosningar verða haldnar í Michigan, Washington, Missouri, Mississippi og Idaho. Í Norður-Dakóta verða haldnir kjörfundir.

Heilt yfir eru 352 landsfundarfulltrúar í boði í kvöld, flestir í Michigan. Frambjóðandi þarf 1.991 fulltrúa til að tryggja sér tilnefningu Demókrataflokksins en Biden hefur þegar tryggt sér 670 fulltrúa og Sanders 574. Tulsi Gabbard er tæknilega séð enn í framboði en hún hefur einungis fengið tvo fulltrúa.

Fulltrúar sem frambjóðendur sem eru hættir höfðu tryggt sér munu að mestu dreifast niður á þá sem eftir eru, eftir því hvernig þeim gekk í tilkomandi ríkjum.

Kannanir síðustu daga gefa í skyn að Biden njóti góðs forskots gegn Sanders fyrir kvöldið, nema í Washington þar sem Sanders mælist með nauman meirihluta. Biden er með sérstaklega mikið forskot í Mississippi, Missouri og Michigan.

Sjá einnig: Biden bætir annarri stuðningsyfirlýsingu í safnið fyrir mikilvægt forval

Líkur Biden hafa aukist gífurlega

Heilt yfir segja sérfræðingar að Biden sé mun líklegri en Sanders til að tryggja sér tilnefningu flokksins. Líkön tölfræðivefsins Fivethirtyeight segja til dæmis að líkurnar séu 99 af hundrað, Biden í vil.

Reglurnar í forvalinu eru að mörgu leyti undarlegar og verði gengi Biden í takt við kannanir gæti forskot hans aukist til muna, samkvæmt greiningu AP fréttaveitunnar.

Sanders hefur þó varið gífurlegu púðri í kosningabaráttu sinni í Michigan. Þrátt fyrir að kannanir sýna Biden með mikið forskot í ríkinu var staðan svipuð árið 2016 þegar Sanders vann óvæntan sigur þar sem hleypti nýju lífi í framboð hans gegn Hillary Clinton.

Sanders bindur miklar vonir við að hið sama sé upp á teningnum núna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×