Erlent

Obama gagnrýnir enn viðbrögð Trump-stjórnarinnar við faraldrinum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá ávarpi Obama til útskriftarárganga háskóla í gær.
Frá ávarpi Obama til útskriftarárganga háskóla í gær. Vísir/AP

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er áfram gagnrýninn á viðbrögð Donalds Trump og ríkisstjórnar hans við kórónuveirufaraldrinum í Bandaríkjunum. Hann segir marga embættismenn „ekki einu sinni þykjast vera við stjórnvölinn.“

Þetta sagði Obama í ávarpi sem hann flutti á netinu og beindist að þeim ungmennum sem nú útskrifast úr háskólum Bandaríkjanna. Útskriftir víða um heim hafa þurft að vera með öðruvísi sniði sökum þeirra reglna sem komið hefur verið á til þess að forða útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í ávarpinu sagði Obama að faraldurinn hefði varpað ljósi á annmarka í forystu landsins.

„Meira en nokkuð annað hefur þessi heimsfaraldur algerlega og loksins svipt hulunni af þeirri hugmynd að margt af því fólki sem stjórnar viti hvað það er að gera. Margt þeirra er ekki einu sinni að þykjast vera við stjórnvölinn,“ sagði Obama.

Þetta er í annað sinn á fáeinum dögum sem forsetinn fyrrverandi lét hörð gagnrýnisorð falla um stjórn Trumps og viðbrögð hennar við faraldrinum. Í síðustu viku lak innihald símafundar þar sem hann kallaði viðbrögð stjórnvalda „skipulagslaust stórslys.“

Ekkert ríki hefur staðfest fleiri tilfelli kórónuveirunnar en Bandaríkin. Rétt rúmlega ein og hálf milljón manna hefur greinst með veiruna. Þá hafa hvergi látist fleiri af völdum veirunnar en í Bandaríkjunum. Þar hafa rúmlega 90 þúsund látið lífið, þar af 1.218 síðasta heila sólarhringinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×