Erlent

Ætlaði að safna 180 þúsund krónum en er kominn vel yfir milljarð

Samúel Karl Ólason skrifar
Tom Moore er 99 ára gamall og vildi upprunalega safna þúsund pundum.
Tom Moore er 99 ára gamall og vildi upprunalega safna þúsund pundum.

Hinn 99 ára gamli Tom Moore, sem barðist í seinni heimsstyrjöldinni, setti sér það markmið að ganga hundrað sinnum yfir garð sinn fyrir hundrað ára afmæli sitt í lok mánaðarins. Samhliða því ætlaði hann að safna þúsund pundum fyrir Heilbrigðisstofnun Bretlands en hann hefur þó safnað vel á sjö milljónum punda.

Söfnunarsíða Moore hrundi um tíma vegna þess hve margir vildu heita á hann. Á meðan þessi grein var skrifuð hækkaði upphæðin sem Moore hefur safnað um rúmlega tvö hundruð þúsund pund.

Sjálfur segir Moore, sem notast við göngugrind, að heilbrigðisstarfsmenn eigi hvert penní skilið.

Dóttir hans sagði BBC, þegar söfnunin náði fjórum milljónum punda að hún hefði farið fram úr þeirra björtustu vonum. Þau hafi í fyrstu talið að þúsund pund væru of mikið.

„Það sem breskur almenningur hefur gert fyrir hann er að gefa honum nýjan tilgang. Ég held að hann muni halda áfram þar til honum verði skipað að hætta,“ sagði Hannah Inghram-Moore.

Hann hefur sagt að hann vilji klára fyrstu hundrað ferðirnar og fara svo hundrað til viðbótar.

Þúsund pund samsvara um 180 þúsund krónum. 6,5 milljónir punda samsvara um 1,1 milljarði króna.

Uppfært 14:30

Moore hefur nú safnað rúmlega 7,3 milljónum punda, sem samsvarar um 1,3 milljarði króna. Hraðinn á söfnuninni hefur verið gífurlegur en hún náði fyrst milljón punda í gærmorgun.

Hér má sjá myndband af Moore sem birt var í síðustu viku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×