Íslenski boltinn

Rúnar fékk skýrsluna um Motherwell á kaffifilter

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson rifjaði upp ótrúlegt tímabil Stjörnumanna árið 2014 með Gumma Ben í gær.
Rúnar Páll Sigmundsson rifjaði upp ótrúlegt tímabil Stjörnumanna árið 2014 með Gumma Ben í gær. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, rifjaði upp Íslandsmeistaraárið 2014 með Gumma Ben í Sportinu í kvöld. Stjörnumenn náðu einnig afar langt í Evrópukeppni það ár.

Stjörnumenn slógu Bangor City frá Wales út með tveimur 4-0 sigrum í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Þeir unnu svo Motherwell frá Skotlandi og Lech Poznan frá Póllandi, áður en þeir voru slegnir út í síðustu umferð fyrir sjálfa riðlakeppnina, af stórliði Inter Mílanó.

Rúnar fór með Brynjari Birni Gunnarssyni, þáverandi aðstoðarþjálfara Stjörnunnar, til að sjá Bangor spila og safna upplýsingum fyrir einvígi liðanna. Bangor reyndist engin fyrirstaða en daginn eftir útileikinn æfðu Stjörnumenn á æfingasvæði Wolves, í gegnum sambönd Brynjars Björns úr enska boltanum. Rúnar fól svo danska markmannsþjálfaranum Henrik Bödker að safna upplýsingum um næsta andstæðing, Motherwell, í Skotlandi.

„Ég á nú kannski ekki að segja þessa sögu en ég get alveg stiklað á stóru varðandi hana. Henrik varð eftir til að sjá Motherwell spila og fór til Glasgow. Hann kom með helvíti góða skýrslu til baka, við getum orðað það þannig. Við slógum þá alla vega út,“ sagði Rúnar Páll léttur í bragði. Ætla má að Bödker hafi þurft að sinna fleiri erindum í ferðinni en skýrslan var alla vega ekki óþarflega löng:

„Þetta var bara lítill kaffifilter sem hann hafði skrifað byrjunarliðið á. Það var alveg nóg fyrir okkur,“ sagði Rúnar og brosti.

Klippa: Sportið í kvöld - Rúnar Páll rifjaði Evrópuævintýrið upp

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×