Íslenski boltinn

26 dagar í Pepsi Max: Íslandsmeistaratitlar sex félaga eiga stórafmæli í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það eru hundrað ár í sumar síðan að Víkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta skiptið. Hér eru þeir Kári Árnason, Halldór Smári Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen með bikarinn sem Víkingar unnu í fyrra.
Það eru hundrað ár í sumar síðan að Víkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta skiptið. Hér eru þeir Kári Árnason, Halldór Smári Sigurðsson og Sölvi Geir Ottesen með bikarinn sem Víkingar unnu í fyrra. Vísir/Vilhelm

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 26 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Sex félög geta haldið upp á stórafmæli Íslandsmeistaratitils í sumars þar af eru hundrað ár síðan Víkingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn sumarið 1920. Hin félögin eru Breiðablik, KR, Fram, Valur og ÍA.

Víkingar þurftu aðeins að vinna tvo leiki til að verða Íslandsmeistarar fyrir hundrað árum síðan en þeir höfðu þá betur á móti bæði Fram (4-3) og KR (5-2).

Valsmenn eiga þrjú stórafmæli titla í sumar því það eru níutíu ár síðan Hlíðarendafélagið varð meistari í fyrsta sinn árið 1930, áttatíu ár síðan Valur varð Íslandsmeistari i sjöunda skiptið árið 1940 og fjörutíu ár síðan Valsmenn urðu meistarar í sautjánda sinn árið 1980.

KR og ÍA geta haldið upp á stórafmæli tveggja Íslandsmeistaratitla. Skagamenn urðu Íslandsmeistarar í sjötta skiptið fyrir sextíu árum árið 1060 og Íslandsmeistarar í sjöunda skiptið fyrir fimmtíu árum árið 1970.

KR-ingar urðu aftur á móti Íslandsmeistarar í þrettánda skiptið fyrir sjötíu árum árið 1950 og fyrstu Íslandsmeistara nýrrar aldar fyrir tuttugu árum árið 2000 en það var þeirra 22. Íslandsmeistaratitill.

Blikar unnu sinn fyrsta og eina Íslandsmeistaratitil fyrir tíu árum og það eru þrjátíu ár síðan Framarar urðu Íslandsmeistarar í átjánda og síðasta skiptið til þessa.

Stórafmæli Íslandsmeistaratitla í sumar

  • Tíu ár síðan Breiðablik varð Íslandsmeistari 2010
  • Tuttugu ár síðan KR varð Íslandsmeistari 2000
  • Þrjátíu ár síðan Fram varð Íslandsmeistari 1990
  • Fjörutíu ár síðan Valur varð Íslandsmeistari 1980
  • Fimmtíu ár síðan ÍA varð Íslandsmeistari 1970
  • Sextíu ár síðan ÍA varð Íslandsmeistari 1960
  • Sjötíu ár síðan KR varð Íslandsmeistari 1950
  • Áttatíu ár síðan Valur varð Íslandsmeistari 1940
  • Níutíu ár síðan Valur varð Íslandsmeistari 1930
  • Hundrað ár síðan Víkingur varð Íslandsmeistari 1920


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.