Erlent

Rúss­ar reið­ir yfir frétt­um af ó­til­greind­um dauðs­föll­um

Samúel Karl Ólason skrifar
Maður gengur hjá minnisvarða um heilbrigðisstarfsmenn sem hafa dáið vegna Covid-19.
Maður gengur hjá minnisvarða um heilbrigðisstarfsmenn sem hafa dáið vegna Covid-19. AP/Dmitri Lovetsky

Yfirvöld Rússlands eru reið yfir fréttum erlendra fjölmiðla yfir því að mun fleiri hafi dáið þar í landi vegna Covdid-19 en opinberar tölur segja til um. Anatoly Antonov, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, sendi nýverið bréf á ritstjórnir New York Times og Financial Times þar sem þess var krafist að fregnir af dauðsföllum í Rússlandi yrðu dregnar til baka.

Maria Zakharova, talskona Utanríkisráðuneytis Rússlands, sagði í vikunni að kvartanir yrðu einnig sendar til Harlem Desir, erindreka varðandi frelsi fjölmiðla hjá Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar Örygis- og samvinnustofnunar Evrópu, og til Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóra UNESCO.

Rússland er það land þar sem næst flestir smitaðir hafa greinst en yfirvöld landsins hafa gefið verulega í varðandi skimun fyrir nýju kórónuveirunni.

Maria Zakharova, talskona Utanríkisráðuneytis Rússlands.AP/Alexander Zemlianichenko

Opinberar tölur Rússlands segja minnst 252.245 hafa smitast af veirunni, sem veldur Covid-19, þar í landi og 2.305 hafa dáið. Það er mun minna en í öðrum ríkjum þar sem sambærilega margir hafa smitast.

Á Bretlandi hefur til að mynda minnst 234.441 smitast og þar eru 33.693 dánir. Á Spáni hafa 229.540 smitast og 27.231 dáið. Á Ítalíu hafa 223.096 smitast og 31.368 dáið, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans, sem unnar eru úr opinberum gögnum.

Í greinum NYT og FT var því haldið fram að með því að bera saman opinberar tölur um hve margir hefðu dáið í Moskvu og St. Pétursborg í apríl og bera það saman við sömu tölur nokkur ár aftur í tímann hafi komið í ljós að mun fleiri hafi dáið vegna Covid-19 en gefið hefur verið upp.

FT sagði gögnin benda til þess að dauðsföll vegna Covid-19 gætu verið 70 prósentum fleiri en gefið hefur verið upp.

Zakharova sagði þetta vera falsfréttir og hefur minnst einn þingmaður lagt til að blaðamönnum miðlanna verði meinaður aðgangur að Rússlandi. Zakharova sagði að aðgerðir gegn miðlunum tækju mið af því hvort fréttirnar yrðu dregnar til baka.

Þá hafa yfirvöld Rússlands farið fram á að Google loki á þá grein Financial Times sem um ræðir.

Í samtali við AP fréttaveituna segir talsmaður NYT að fréttin byggi á opinberum gögnum frá Moskvu.

Moscow Times sagði frá því á dögunum að embættismenn í Moskvu hafi sagt fjölmiðlum að rúmlega 60 prósent dauðsfalla vegna Covid-19 í borginni kæmu ekki fram í opinberum tölum. Þó fólk væri smitað af veirunni hefðu dauðsföll þeirra verið sögð af öðrum orsökum.

Þungamiðja faraldursins er í Moskvu og á miðvikudaginn höfðu minnst 126.004 smitast og samkvæmt talningu ríkisins höfðu 1.232 dáið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×