Erlent

Fólk haldi ró sinni þrátt fyrir að eldarnir nálgist Tsjern­obyl

Atli Ísleifsson skrifar
Mynd tekin af þaki kjarnorkuversins í Tsjernobyl síðastliðinn föstudag.
Mynd tekin af þaki kjarnorkuversins í Tsjernobyl síðastliðinn föstudag. AP

Stjórnvöld í Úkraínu hafa hvatt íbúa í norðurhluta landsins að halda ró sinni, en slökkviliðsmenn vinna nú að því að hefta frekari útbreiðslu gróðurelda sem nálgast óðfluga kjarnorkuverið Tsjernobyl.

BBC vísar í háttsettan embættismann sem segir kjarnorkuverið, sem lokað var í kjölfar slyss árið 1986, ekki vera í neinni hættu vegna eldanna. Fréttir hafa borist af því að einn eldanna, sem hefur náð yfir um 12 þúsund hektara svæði, sé nú einungis í um kílómetra fjarlægð frá verinu.

Eldar hafa nú geisað á svæðinu frá upphafi mánaðar og hefur sá stærsti skilið eftir sér sviðna jörð á um 34 þúsund hektara svæði. Gróðureldar eru tiltölulega algengir á þessu svæði, en fulltrúar Greenpeace í Rússlandi segja eldana geta orðið þá mestu í áratugi.

Lögregla í Úkraínu hefur handtekið 27 ára karlmann sem grunaður er um að hafa verið valdur að eldunum. Mörg hundruð slökkviliðsmanna eru að störfum að svæðinu og hefur verið notast við þyrlur og flugvélar sem sérhannaðar eru til slökkvistarfs.

Anton Geraschenko, aðstoðarinnanríkisráðherra Úkraínu, hefur hvatt almenning til að halda ró sinni og segir að steypumannvirkið sem reist var yfir kjarnorkuverið sé öruggt.

Í síðustu viku bárust fréttir ar því að geislavirknin á svæðinu hafi sums staðar margfaldast af völdum eldanna, en stóru svæði var lokað vegna mikillar geislavirkni í kjölfar kjarnorkuslyssins í Tsjernobyl árið 1986.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×