Fótbolti

Hitapulsan blásin upp | „Sé enga ástæðu til að þetta klikki“

Sindri Sverrisson skrifar
Hitapulsan er komin á Laugardalsvöll.
Hitapulsan er komin á Laugardalsvöll. mynd/stöð2

Í dag var hitadúkur lagður yfir Laugardalsvöll til að losa um frost og kulda á grasi vallarins, sem verið hefur snævi þakinn síðustu vikur. Það er mikilvægur liður í að gera völlinn kláran fyrir stórleik Íslands og Rúmeníu 26. mars í umspili um sæti á EM karla.

„Núna eru þrjár vikur í leik og við erum með gróft plan um að á þessum þremur vikum tökum við dúkinn af 1-2 sinnum af,“ segir Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2. Í innslaginu hér að neðan má sjá þegar dúkurinn var blásinn upp.

„Á þeim stutta tíma sem dúkurinn er niðri [ekki á vellinum] erum við að fara að valta völlinn og bera á hann, kannski ekki slá mikið en reyna að búa til eitthvað mynstur á hann, slétta og laga og gera hann fínan. Vonandi fer dúkurinn upp og niður tvisvar eða þrisvar sinnum,“ segir Kristinn. Miklu hefur verið til kostað til að leikurinn geti farið fram á vellinum:

„Það eru margir sem koma að þessu og það þarf að huga að ýmsu. Það koma margir aðilar að þessu svo þetta hefur verið gott púsluspil,“ segir Kristinn. En getur þetta klikkað?

„Ég sé enga ástæðu til að þetta klikki.“

Klippa: Hitapulsan blásin upp

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×