Innlent

Um 70 hafa bókað ferð heim frá Alicante í næstu viku

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Icelandair flýgur enn til London og Boston nokkuð reglulega. Þá verða ferðir í næstu viku frá Alicante og um Stokkhólm í næstu viku.
Icelandair flýgur enn til London og Boston nokkuð reglulega. Þá verða ferðir í næstu viku frá Alicante og um Stokkhólm í næstu viku. Vísir/Vilhelm

Sjötíu hafa þegar bókað ferð heim með Icelandair frá Alicante í næstu viku og enn eru laus sæti í vélinni. Nokkuð vel er einnig bókað í ferð sem er á áætlun frá Stokkhólmi í næstu viku. Icelandair vinnur nú að því að reyna að taka ákvarðanir um flugáætlun um það bil viku fram í tímann.

Verulegt röskun hefur orðið á flugsamgöngum um allan heim vegna kórónuveirufaraldursins og enn er nokkur fjöldi Íslendinga í útlöndum sem stefnir á að koma heim. Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir daglega einhverjar ferðir á áætlun þótt meira og minna allt flug til og frá landinu liggi niðri.

„Eins og staðan hefur verið þá höfum við verið að aðlaga flugáætlunina okkar svona 48 tíma fram í tímann og auðvitað lagt áherslu á að halda uppi flugsamgöngum til og frá landinu. Núna erum við að vinna að því að taka ákvarðanir aðeins lengra fram í tímann, svona um það bil viku,“ segir Ásdís.

„Eins og staðan er núna þá höfum við verið fyrst og fremst að fljúga til London Evrópu megin og Boston Ameríku megin en síðan erum við með tvö önnur flug sett upp í næstu viku, það er til og frá Stokkhólmi á þriðjudaginn 7. apríl og síðan frá Alicante þar sem við erum að sækja Íslendinga,“ segir Ásdís.

Um sjötíu manns hafa þegar bókað ferð heim frá Alicante sem verður á miðvikudaginn og nokkuð vel hefur einnig verið bókað milli Keflavíkur og Stokkhólms að sögn Ásdísar. Ferðir til og frá London og Boston séu á áætlun nánast daglega. „En við höfum líka sameinað flug, þannig það hefur kannski ekki verið á hverjum einasta degi til tveggja áfangastaða en svona nánast,“ segir Ásdís.

Þótt áfram standi ákveðnar leiðir opnar til og frá landinu hvetur María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins, þá sem hafa hug á að koma heim að gera ráðstafanir hið fyrsta. „Við teljum að það sé mikilvægt að taka ákvörðun núna. Það eru auðvitað fjölmargir sem hafa komið heim nú þegar og aðrir sem hafa ákveðið að vera áfram úti,“ segir María Mjöll.

„Það eru flugleiðir út um allan heim sem eru að loka þannig að ef fólk hyggst koma heim, þá þarf það að gera það núna.“ Ómögulegt sé að segja til um það á þessari stundu hversu lengi þetta ástand muni vara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×