Fótbolti

Ósáttur með ákvörðun Liverpool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Carragher, sem starfar í dag fyrir Sky, er ósáttur með sitt fyrrum félag.
Carragher, sem starfar í dag fyrir Sky, er ósáttur með sitt fyrrum félag. EPA-EFE/PETER POWELL

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, er allt annað en sáttur með ákvörðun Liverpool að nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda.

Eins og kom fram á Vísi fyrr í dag þá ákvað Liverpool að nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda sem gerir þeim kleift að þurfa ekki að borga nema 20% launa starfsmanna sinna.

Ekki er um að ræða leikmenn liðsins en þó nokkrir starfsmenn félagsins hafa verið sendir í leyfi. Það þýðir að stjórnvöld í Bretlandi þurfa nú að greiða starfsmönnunum 80% launa sinna. Hin 20% borgar Liverpool.

Stuðningsmenn Liverpool hafa tekið þessum fréttum vægast sagt illa og hefur framkvæmdastjóri félagsins, Peter Moore, fengið sinn skerf af gagnrýnni á samfélagsmiðlinum Twitter. 

Nú hefur Carragher tekið í sama streng. Hann er vægast sagt ósáttur með ákvörðun félagsins og nýtir sér einnig Twitter til að láta skoðun sína í ljós.

„Jür­gen Klopp sýndi mikla samúð í byrj­un far­ald­urs­ins og leik­menn spiluðu stórt hlut­verk í lækk­un launa. Góðviljinn og virðingin sem fylgdi því er nú horfinn.  Lélegt þetta Liverpool,“ segir Carragher. 

Reikna má með því að Liverpool gefi út yfirlýsingu á komandi dögum en félagið reiknaði eflaust ekki með því að þessi ákvörðun myndi draga slíkan dilk á eftir sér.


Tengdar fréttir

Stuðningsmenn Liverpool brjálaðir

Stuðningsmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool eru brjálaðir út í Peter Moore framkvæmdastjóra félagsins fyrir það að nýta sér neyðarúrræði stjórnvalda.

Liverpool nýtir neyðarúrræði stjórnvalda

Enska knattspyrnufélagið Liverpool, efsta lið úrvalsdeildarinnar, hefur ákveðið að senda hluta starfsmannahóps síns í leyfi nú þegar algjört fótboltahlé er í Englandi vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×