Erlent

Friðargæsla í Súdan efld

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ban Ki Moon, framkvæmdastjóri SÞ ásamt Merkel, kanslara Þýskalands
Ban Ki Moon, framkvæmdastjóri SÞ ásamt Merkel, kanslara Þýskalands Mynd/ AFP

Súdanir hafa fallist á áætlun sem gerir ráð fyrir að sameiginleg friðarsveit Afríkubandalagsins og Sameinuðu þjóðanna starfi í Darfur.

Samkvæmt þessari áætlun mun Afríkubandalagið stjórna daglegum aðgerðum en Sameinuðu þjóðirnar munu hafa yfirstjórn á 17 þúsund friðarliðum í héraðinu. Nú þegar er sjö þúsund manna lið Afríkubandalagsins við friðargæslu en ástandið þar er alvarlegt. Ban Ki Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur fagnað fyrirætlununum. Hann leggur áherslu á þörf fyrir tafarlaust vopnahlé á svæðinu.

Afríkubandalagið og Sameinuðu þjóðirnar kynntu friðargæsluáætlunina á fundi í Addis-Ababa. Með nýja planinu er brugðist við mótmælum frá ríkisstjórn Súdan, sem vill ekki að Sameinuðu þjóðirnar taki yfir alla friðargæslu á svæðinu. Þeir telja það vera vestræna innrás í land sitt.

Rösklega 200 þúsund manns hafa látið lífið í átökum í Darfur síðastliðin fjögur ár og um tvær milljónir manna hafa flúið í flóttamannabúðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×