Erlent

Fleiri deyja á dvalarheimilum en sjúkrahúsum á Bretlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill fjöldi eldri borgara á Bretlandi hefur dáið úr Covid-19.
Mikill fjöldi eldri borgara á Bretlandi hefur dáið úr Covid-19. EPA/Leon Neal

Rúmlega 40 þúsund manns hafa nú dáið vegna Covid-19 á Bretlandi. Það er hæsta talan í Evrópu og eingöngu hafa fleiri dáið í Bandaríkjunum, eða minnst 80.684. Af þeim 40.011 sem hafa dáið á Bretlandi hafa nærri því tíu þúsund dáið á dvalarheimilum, samkvæmt umfjöllun Guardian, og hefur dauðsföllum þar fækkað hægar en dauðsföllum á sjúkrahúsum.

Ljóst er þó að dauðsföllum hefur farið fækkandi um landið allt.

Blaðamenn Reuter, sem hafa rýnt í tölfræðina á Bretlandi, segja að eldri borgarar Bretlands hafi setið eftir vegna áherslu ríkisstjórnar Boris Johnson, forsætisráðherra, á að verja sjúkrahús.

Vitnað er í starfsmann Hagstofu Bretlands sem segist ekki muna til þess að það hafi gerst áður að dauðsföll hafi verið fleiri á dvalarheimilum en á sjúkrahúsum og það hafi verið svo að undanförnu.

Miðað við tölur frá Johns Hopkins háskólanum hafa 30.739 dáið á Ítalíu, 26.744 á Spáni og 26.646 í Frakklandi. Það er þó ekki víst hvort þær tölur innihaldi dauðsföll á dvalarheimilum og heimilum vegna ósamræmis á milli opinberra talninga hvers ríkis fyrir sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×