Erlent

Vísar gagn­rýni á bug varðandi nýja eins metra reglu

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hélt fréttamannafund í morgun. 
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hélt fréttamannafund í morgun.  Getty

Enn dregur úr útbreiðslu kórónuveirunnar í Danmörku, þrátt fyrir að slakað hafi verið á takmörkunum í dönsku samfélagi. Frá þessu greindi Mette Frederiksen forsætisráðherra á fréttamannafundi í morgun þar sem hún vísaði í tölur frá dönskum heilbrigðisyfirvöldum.

Tölurnar sýna að smitum hafi fækkað frá lokum apríl, en rannsóknin náði til daganna 1. til 7. maí. Hinn svokallaði R-stuðull, sem vísar í hvað hver smitaði einstaklingur smitar marga, hefur nú farið úr 0,9 í 0,7.

Smitum hefur fækkað þrátt fyrir að til búið sé að opna á starfsemi hárgreiðslustofa, skóla og leikskóla svo eitthvað sé nefnt, en sú starfsemi féll undir fasa 1 í tilslökunum danskra yfirvalda. Fasi 2 hófst í gær.

Náð stjórn á faraldrinum

Frederiksen segir að Danir hafi náð stjórn á faraldrinum og að búið sé að kortleggja hvernig skuli opna samfélagið á ný. Samkomulag sem allir flokkar á þingi styðji. 

Forsætisráðherrann sagði einnig að nú myndu heilbrigðisyfirvöld ráðast í umfangsmeiri skimun en verið hefur, leggja aukinn kraft í smitrakningu þannig að slíta megi smitkeðjurnar eins fljótt og mögulegt er. Hún sagði veiruna enn jafn hættulega og jafn smitandi og því sé nauðsynlegt að áfram vera á varðbergi.

Eins metra regla nú í gildi

Ákvörðun danskra yfirvalda um að slaka á „tveggja metra reglunni“ þannig að nú sé miðað við „eins metra reglu“ í samskiptum fólks, sem tók gildi á sunnudag, bar einnig á góma á fréttamannafundi Frederiksen í morgun.

Kynntar áætlanir yfirvalda um tilslakanir hafa sætt nokkurri gagnrýni þar sem „eins metra reglan“ hefði getað haft í för með sér að hægt hefði verið að slaka frekar á aðgerðum þannig að ákveðin menningarstarfsemi hefði getað hafist fyrr.

Þessu vísaði Frederiksen á bug og vísaði í að hin nýju viðmið hafi ekki verið sá grunnur sem að samkomulagið sem náðist milli þingflokka um opnun samfélagsins hafi byggst á.

Norðmenn hafa sömuleiðis sagt skilið við tveggja metra regluna, og miða nú við einn metra.

Skráð smit í Danmörku eru nú um 10.500 talsins og hafa 533 dauðsföll verið rakin til Covid-19.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×