Innlent

Við­horf ráð­herra beri vott um skilnings­leysi gagnvart stöðu stúdenta

Sylvía Hall skrifar
Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs.
Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs. Stúdentaráð

„Fyrstu viðbrögð eru auðvitað vonbrigði og það blossaði upp mikil reiði meðal stúdenta við að heyra þessa skoðun ráðherra. Það er ekki þannig að við séum búin að vera að krefjast eingöngu atvinnuleysisbóta af því að við viljum komast upp með að gera ekki neitt.“

Þetta segir Jóna Þórey Pétursdóttir forseti Stúdentaráðs um ummæli Ásmundar Einars Daðasonar barna- og félagsmálaráðherra í Silfrinu í dag þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af því að allar kröfur sem væru að koma fram miðuðu að því að slökkva allt og loka öllu og allir vildu fá fjármagn fyrir að „gera ekki neitt“. Það væri því ekki skynsamlegt að leyfa stúdentum að sækja um atvinnuleysisbætur þegar tugir þúsunda væru nú þegar á atvinnuleysisskrá.

„Þetta viðhorf til atvinnuleysisbóta, að þær séu til þess gerðar að greiða fólki fyrir að gera ekki neitt er að sjálfsögðu ekki þannig. Það eru skilyrði fyrir því að vera virkur í atvinnuleit og taka störfum sem þér bjóðast, og það myndi líka ganga yfir stúdenta. Þetta viðhorf lýsir svolitlu skilningsleysi að okkar mati og þeirri stöðu sem stúdentar eru í og af hverju við erum að leggja þessar kröfur fram í raun og veru,“ segir Jóna Þórey í samtali við Vísi.

Hún segir Stúdentaráð hafa lagt fram tillögur að úrræðum fyrir stúdenta, til að mynda fjölgun sumarstarfa og fleiri atvinnuskapandi úrræðum í einkageiranum. Krafan um atvinnuleysisbætur fyrir stúdenta komi fram samhliða því til þess að tryggja öllum framfærslu og fjárhagsöryggi.

„Eitthvað er í vinnslu vissulega, en það er þessi öryggisventill sem þarf að vera til staðar til þess að grípa fólk sem hefur hvað mestar áhyggjur og mun koma hvað verst út úr þessu, því þeir sem eru félagslega verst staddir og hafa ekki sterkt bakland og geta í rauninni ekki flutt úr sínum leiguhúsnæðum aftur heim og svo framvegis, þeir munu sitja eftir,“ segir Jóna Þórey og bætir við að sá hópur muni neyðast til þess að sækja í úrræði velferðarkerfisins og því er kostnaðurinn sem fylgi ástandinu óhjákvæmilegur.

Á borði ráðherra að foreldrar og börn komi ekki illa út úr ástandinu 

Jóna Þórey segir tímabundna framfærslu fyrir stúdenta í sumarið ekki fjarstæðukennda hugmynd. Slíkt úrræði hafi verið í boði sumarið 2009 þegar ástandið á vinnumarkaði var afar slæmt eftir hrun og það væri öllum til bóta ef það væri einnig í boði nú.

Í könnun Stúdentaráðs kom í ljós að stúdentar upplifðu mikinn kvíða vegna kórónuveirufaraldursins og ástandið hefði verulega slæm áhrif á andlega heilsu þeirra. Jóna Þórey segir fjárhagsáhyggjur ofan á það gera slæmt ástand enn verra.

„Það er algjörlega okkar tilfinning að óöryggið og óvissan er að fara mjög illa í fólk. Samkvæmt þeirri könnun höfðu foreldrar langt umfram meiri áhyggjur af fjárhagsöryggi sínu heldur en aðrir hópar, sem og fólk í leiguhúsnæðum. Það er auðvitað borði háttvirts barnamálaráðherra að foreldrar og börn muni ekki koma illa út úr þessu. Foreldrar í námi hafa mjög miklar áhyggjur af stöðunni.“

Aðspurð hvort hún telji barna- og félagsmálaráðherra gera sér grein fyrir þeirri stöðu sem margir stúdentar eru í segir Jóna Þórey það ekki hafa sýnt sig í viðtalinu.

„Mér finnst það allavega ekki hafa endurspeglast í þessu viðtali, en ég vona að hann geri það að meira marki en kom þarna fram í Silfrinu í dag.“

Ummælin í besta falli óheppileg 

Í yfirlýsingu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands er lýst yfir vonbrigðum með ummælin. Þau séu í besta falli óheppileg og lýsi vonandi ekki viðhorfi ráðherra til krafna þeirra um fjárhagsöryggi. Nú sé sumarið komið og stúdentar geti ekki beðið lengur.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa á samfélagsmiðlum og hafa stúdentar lýst yfir reiði og vonbrigðum, fyrst þegar tillaga um atvinnuleysisbætur til stúdenta var felld og nú í dag vegna ummæla Ásmundar í Silfrinu.


Tengdar fréttir

Skoða hvort fallist verði á kröfu SHÍ um að fella niður skrá­setningar­gjöld

Samhæfingarhópur sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett á laggirnar skoðar nú hvort farið verði á kröfu Stúdentaráðs Háskóla Íslands um að fellda niður skólagjöld næsta skólaárs vegna slæmrar fjárhagsstöðu stúdenta vegna kórónuveirufaraldursins. Einnig kemur til skoðunar að nemendur fái frest til að greiða gjöldin.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.