Erlent

Viðræður þegar hafnar um frið fyrir botni Miðjarðarhafs

Samningamenn Palestínumanna og Ísraela eru þegar farnir að ræða saman um frið fyrir botni Miðjarðarhafs þó að eiginlegar samningaviðræður hefjist ekki fyrr en á morgun. Þeir eru allir komnir til Washington í Bandaríkjunum og eiga að hitta Bush forseta síðar í dag.

Ahmet Qureia, Saeb Erakat og aðrir samningamenn Palestínumanna hafa ekki sést mikið undanfarin ár en nú eru þeir komnir til Bandaríkjanna til að hitta ísraelska ráðamenn.

Þótt ekki sé nema tuttugu mínútna ökuferð milli skrifstofa þeirra að öllu jöfnu þá er fundurinn haldinn í Bandaríkjunum. Bandaríkjastjórn hefur einsett sér að þrýsta á um að samningar náist um framtíð Palestínu nú þegar rúmt ár er eftir af kjörtímabili Bush Bandaríkjaforseta.

Sams konar viðræður fóru fram fyrir átta árum, þegar Clinton þáverandi forseti var að ljúka valdatíð sinni, en þær fóru út um þúfur og síðari uppreisn Palestínumanna blossaði upp skömmu síðar.

Viðræðurnar hefjast formlega á morgun í Annapolis, sem er nálægt Washington borg, en í dag hitta leiðtogar samninganefndanna Bush forseta. Samningamennirnir hittust óvænt í gærkvöldi og talið er að þeir hafi verið að undirbúa viðræðurnar.

Í Ísrael hafa verið gerðar miklar öryggisráðstafanir. Yfirvöld óttast að andstæðingar samninga reyni að hafa áhrif á viðræðurnar í Bandaríkjunum með því að fremja hryðjuverk á meðan þær standa yfir.

Hamas-flokkurinn, sem ræður ríkjum á Gaza ströndinn, tekur ekki þátt í viðræðunum. Sýrlendingar og Sádi-Arabar hafa nú tilkynnt að þeir muni líka mæta til Annapolis. Þátttaka Sýrlendinga þykir mikilvæg og glæðir eitthvað daufar vonir um að árangur verði af fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×