Erlent

Sjö ákærðir vegna flótta Ghosn í Tyrklandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Carlos Ghosn á blaðamannafundi í Beirút þangað sem hann flúði í janúar.
Carlos Ghosn á blaðamannafundi í Beirút þangað sem hann flúði í janúar. Vísir/EPA

Stjórnandi flugfélags, fjórir flugmenn og tveir flugliðar hafa verið ákærðir í tengslum við flótta Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóra Nissan, frá Japan í desember. Sakborningarnar voru handteknir í janúar en tyrknesk stjórnvöld hafa neitað því að hafa vitað af viðkomu Ghosn í landinu.

Ghosn flúði ákærur um fjárglæpi í Japan þegar hann gekk laus gegn tryggingu en hann hafði áður setið í fangelsi. Hann flúði til Beirút í Líbanon með viðkomu í Istanbúl 29. desember.

Tyrkneska flugfélagið MNG Jet segir að tvær flugvélar þess hafi verið notaðar ólöglega við flóttann og lagði fram kæru vegna þess. Það segir að starfsmenn þess hafi viðurkennt að hafa falsað skjöl til að fela að Ghosn væri farþegi.

Flugmennirnir og stjórnandinn eru ákærðir fyrir að smygla „farandverkamanni“. Aðrir í áhöfninni eru ákærðir fyrir að tilkynna ekki um glæpinn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Í Japan hafa saksóknarar gefið handtökuskipun á hendur Ghosn og þriggja Bandaríkjamanna sem þeir saka um að hafa aðstoðað og lagt á ráðin um flóttann. Engin framsalssamningur er á milli Japans og Líbanons og því segir AP-fréttastofan ólíklegt að Ghosn, sem heldur fram sakleysi sínu, verði handtekinn.


Tengdar fréttir

Japanir vísa ásökunum Ghosn á bug

Fyrrverandi stjórnarformaður Nissan bar japansk réttarkerfi þungum sökum á blaðamannafundi í Beirút í gær. Dómsmálaráðherra Japans segir þær stoðlausar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×