Erlent

Malala snýr aftur til Pakistan í fyrsta sinn eftir skotárásina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Malala Yousafzai hefur barist fyrir réttindum kvenna af miklum krafti.
Malala Yousafzai hefur barist fyrir réttindum kvenna af miklum krafti. Vísir/Getty
Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai sneri aftur til Pakistan í gær í fyrsta skipti frá því að vígamenn Talibana réðust á hana og særðu hana lífshættulega árið 2012. CNN greinir frá.

Malala er nú tvítug en hún  öðlaðist heimsfrægð eftir að hún var skotin í höfuðið á leið heim úr skóla af manni sem var andvígur því að stúlkur fengju að ganga í skóla.

Hafði hún árum saman barist fyrir skólagöngu stúlkna í Pakistan og opinberlega gagnrýnt talibana sem fóru um skeið með völdin í Swat-dalnum í Pakistan þar sem hún bjó. Var hún aðeins ellefu ára gömul þegar hún byrjaði að skrifa blogg undir dulnefni þar sem hún lýsti lífinu undir stjórn talibana í Swat-dalnum.

Eftir skotárásina var hún flutt til Birmingham í Englandi til aðhlynningar þar sem hún og fjölskylda hennar settust að. Þaðan hélt hún áfram baráttu sinni fyrir réttindum stúlkna til skólagöngu og hlaut hún friðarverðlaun Nóbels árið 2014, þá sautján ára gömul, yngst allra nóbelsverðlaunahafa.

Malala hefur lengi talað fyrir því að snúa aftur til Pakistan og í gær sást hún á flugvellinum í Islamabad, höfuðborg Pakistan, ásamt foreldrum sínum, í fylgd öryggisvarða.

Lítið hefur verið gefið upp um hvað Malala hyggst gera í Pakistan en fastlega er gert ráð fyrir því að hún muni funda með Shahid Khaqan Abbasi, forsætisráðherra Pakistan.


Tengdar fréttir

Talibani skaut unga stúlku

Talibani skaut 14 ára aðgerðarsinnaða stúlku í Pakistan í dag vegna skoðana hennar. Atvikið gæti markað tímamót og snúið almenningi gegn herskáum öfgamönnum.

Malala fær inngöngu í Oxford

Malala Yousafzai, yngsti einstaklingurinn til að hreppa friðarverðlaun Nóbels, hefur fengið inngöngu í Oxford háskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×