Tíu hið minnsta hafa látist og hundruð veikst alvarlega eftir að gasleki kom upp í suðurhluta Indlands í gærkvöldi. Leikinn kom upp í verksmiðju í borginni Visakhapatman í Andrah Pradesh héraði.
Óljóst er hvað orsakaði lekann en yfirvöld rannsaka nú hvort handvömm af einhverju tagi hafi átt sök á honum. Lekinn kom upp þegar verið var að gangsetja verksmiðjuna að nýju en henni var lokað þann 24. mars síðastliðinn vegna kórónuveirufaraldursins þegar útgöngubann var sett á í öllu landinu.
Þarlendir miðlar segja að búið sé að koma böndum á gaslekann, eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir. Óttast er að gasið hafi borist rúmlega þrjá kílómetra frá upptökum lekans.
Ekkert er enn vitað um afdrif starfsfólksins í verksmiðjunni og þeir sem staðfest hefur verið að látið hafi lífið voru almennir borgarar í nágrenninu. Atvikið þykir minna óþægilega á slysið í indversku borginni Bhopal árið 1984 þegar þúsundir manna létu lífið og enn fleiri örkumluðust fyrir lífstíð.